Þegar þú þarft að gagnrýna, vanda um, benda á, finna að, skamma ...

📖

Þegar þú þarft að gagnrýna, vanda um, benda á, finna að, skamma ...

Það er grátlegt hve lítið mark unglingar taka oft á uppeldisleiðsögn foreldra sinna og annarra fullorðinna og það á því þroskatímabili sem þeir hafa virkilega þörf fyrir það. Iðulega kalla þeir þessar leiðbeiningar tuð, nöldur eða röfl og ráðleggingar og umvandanir virðast fara inn um annað eyrað og út um hitt.

Margir foreldrar þekkja það að eftir að hafa talað til unglingsins í einhvern tíma, kannski um tiltekt í herberginu, heimanámið eða framkomu við systkini og þegar verður smáhlé á messunni lítur unglingurinn upp og spyr þóttafullur:

„Má ég þá fara núna?“

Hann lætur eins og hann hafi ekki heyrt stakt orð af því sem sagt var.

Þetta veldur mörgum foreldrum gremju og þeim finnst unglingurinn hrokafullur og erfiður. Þeir halda því áfram að tala til hans en nú um það hve vanþakklátur hann sé og kunni ekki að meta það sem er gert fyrir hann. Auk þess vilji foreldrarnir ekki hafa þennan tón.

Þá virðist unglingurinn hafa náð fyrsta sigrinum, það er hætt að tala um herbergið og farið að tala um hvernig hann svarar. Þar er unglingurinn á heimavelli.

„Ég var ekkert með neinn tón,“ því hann veit að tónn er persónuleg upplifun sem erfitt er að staðreyna, ólíkt herberginu og heimanáminu.

Það sem var upphaflega til umræðu hverfur og gamla dægurþrasið – fastir liðir eins og venjulega – tekur við. Því er mikilvægt að vanda vel til verka þegar foreldrar ákveða að ræða við unglinginn um málefni sem þeir vita af fyrri reynslu að geti verið „hitamál“.

Meðal þess sem þarf að huga að er að setjast við hliðina á unglingnum í sófanum en ekki andspænis honum við eldhúsborðið. Skilaboðin eiga að vera að við erum samherjar að takast á við verkefnin, t.d. heimanámið og skipulag þess. Við erum ekki andstæðingar sem eru að takast á.

Næsta skref er að setja fram það sem foreldrið hefur áhyggjur af eða er ósátt við. Við það þarf einnig að vanda til verka. Setningar eins og þessar eru ekki líklegar til árangurs:

„Hvernig stendur á að ég sé þig aldrei læra heima?“

„Af hverju þurfa börn þeirra sem vinna með mér og eru líka í 10. bekk að læra heima en þú aldrei?“

„Ég nenni ekki að standa í að bera alltaf ábyrgð á náminu þínu, þú getur bara fallið úr skóla ef það er það sem þú vilt.“

Byrjaðu á sanngjarnan hátt:

„Ég hef haft áhyggjur af heimanáminu þínu, mér finnst eins og þú leggir þig ekki nóg fram, getur það verið?“

Og hlustaðu á svarið.

Ef grannt er að því gætt hvers vegna unglingar vilja ekki hlusta á aðfinnslur og afskipti foreldra sinna þá er ástæðan oft sú að foreldrum hættir til að leggja „áherslu“ á viðhorf sín með sterkum eða ýktum alhæfingarorðum og skaða þannig samskiptin. Þetta eru orð eins og „alltaf“, „aldrei“,

„sífellt“, „stöðugt“, „endalaust“, „þúsund sinnum“, „drasl og rusl“, „allt úti um allt“, „allt á hvolfi“, „eins og í svínastíu“ o.s.frv.

Þessi ýkjuorð eru oftast óréttmæt eða ósönn og setja unglinginn skiljanlega í vörn. Margir foreldrar þekkja sig í setningunni sem er sögð þegar þeir koma inn í herbergi unglingsins:

„Sérðu, svo kastar þú þessu drasli frá þér á mitt gólfið.“

Þarna eru þrjár þrasgrafir. Í fyrsta lagi segir barnið:

„Ég kastaði þessu ekkert, ég setti þetta bara þarna.“ Í öðru lagi segir það:

„Þetta er ekki drasl, þetta eru fötin mín og skóladótið.“ Og í þriðja lagi segir það:

„Svo er þetta ekkert á miðju gólfinu.“

Það er verst fyrir foreldri við slíkar aðstæður ef unglingurinn hefur rétt fyrir sér. Það hefði ef til vill getað forðast þetta „þras“ við hann með því að segja á hlutlausan en ákveðinn hátt:

„Ég er mjög ósátt við að fötin þín og skóladótið sé á gólfinu!“

Það er afar mikilvægt að foreldrar vandi sig með tón og orðaval því oft er stutt í að unglingnum finnist að afskipti þeirra séu afskiptasemi.

Það er ekki ósigur, meðvirkni eða uppgjöf að taka tillit til þessara viðbragða unglingsins, heldur eðlileg tillitssemi og virðing fyrir honum og kennsla í góðum samskiptum.

Ekki vilja foreldrar að börnin læri alhæfingar og óþægilegar fullyrðingar – eða hvað?

Það gæti orðið til þess að þau segi þegar foreldrið er að elda eitthvað sem þau langar ekki í:

„Oh, það er aldrei neitt gott að borða hérna.“