Það brotnaði en það braut það enginn

📖

Það brotnaði en það braut það enginn

Iðulega gera börn mistök. Þau rekast í eitthvað sem brotnar, þau hella of mikilli mjólk út á morgunkornið sitt, þau reka sig í glasið sitt og það fer á hliðina og mjólkin út um allt, þau sparka af sér stígvélinu og það fer í litlu systur, þau fara út í fínu spariúlpunni og skíta hana út ... þau gera stöðugt alls kyns mistök.

Mundu samt að þetta eru mistök. Barnið ætlaði ekki að reka sig í brothætta vasann, það ætlaði ekki að hella svona mikilli mjólk út á morgunkornið, það ætlaði ekki að reka sig í glasið, það ætlaði ekki að hitta litlu systur sína, það ætlaði ekki að skíta út fínu úlpuna.

Það getur verið erfitt að hafa hugfast að þetta eru mistök, sérstaklega þegar þú hefur sagt:

„Passaðu þig á vasanum“ og barnið gerði það ekki. Sömuleiðis þegar þú hefur sagt því að fara varlega við að hella mjólkinni út á morgunkornið, þegar þú hefur bent því á að hafa glasið ekki svona nálægt sér við matarborðið og þegar þú hefur beðið það að gæta sín því að stígvélið gæti farið í einhvern. Það er líka erfitt að muna að það voru mistök þegar barnið gleymdi að það var í spariúlpunni og fór út að leika sér eftir að hafa lofað að gera það

ekki.

Hafðu engu að síður alltaf í huga að fyrir litlu barni eru þetta mistök. Það ætlaði ekki að gera neitt af þessu, þetta voru einfaldlega mistök. Barnið þarf að læra af þeim og gerir það best með því að verða sjálft leitt yfir því sem kom fyrir.

Gættu þess að gera ekki of mikið úr mistökunum, komdu barninu ekki til að reyna að afsaka sig eða „réttlæta“ gjörðir sínar. Fari barnið að afsaka mistök sín fyrir þér er hætt við að það geri líka minna úr þeim fyrir sjálfu sér. Þá lærir það ekki eins mikið af mistökum sínum. Leyfðu barninu að sjá eftir mistökunum og forðastu að setja það í þá stöðu að þurfa að réttlæta þau eða afsaka sig. Það er fyrst og fremst til þess fallið að draga úr ábyrgðarkenndinni og þar með lærdómnum.

Leyfðu barninu síðan að losna undan mistökunum. Talaðu um atburðinn með orðunum:

„Þegar vasinn brotnaði,“ en ekki: „Þegar þú braust vasann.“

„Þegar glasið fór um koll“, en ekki: „Þegar þú veltir glasinu.“

Segðu:

„Þegar það helltist of mikil mjólk yfir morgunkornið,“ en ekki: „Þegar þú sullaðir mjólkinni yfir morgunkornið“ eða

„þegar stígvélið lenti í litlu systur.“

Talaðu um það sem gerðist (ef þörf krefur), en leggðu ekki áherslu á að barnið hafi gert það.

Leyfðu barninu að losna undan mistökunum.