📖
Varastu að láta barnið afsaka það sem það hefur gert af sér
Oftast sjá börn eftir gjörðum sínum, hafi þau gert eitthvað af sér; þau skammast sín eða eru ósátt við hegðun sína. Þetta gera þau iðulega áður en fundið er að því við þau og jafnvel áður en upp kemst um þau ef þannig stendur á.
Þessi tilfinning barnanna sjálfra, skömmin, eftirsjáin og óánægjan með eigin hegðun, er sterkasti hvatinn til að þau vilji bæta um betur og endurtaka ekki það sem þau sjá eftir að hafa gert.
Því er mikilvægt fyrir foreldra þegar svo ber undir að ná að ræða við barnið með það að markmiði að barnið treysti foreldrinu nægilega vel til að segja satt og rétt frá, sérstaklega því sem það gerði. Barnið verður þá að vera í fullvissu um að eiga ekki von á skömmum eða ávítum fyrir verknaðinn, heldur að skilningur ríki á því að barnið sjái eftir því sem það hefur gert, hvað það vildi hafa gert öðruvísi og að það treysti sér til að bera sig að með öðrum hætti í framtíðinni.
Brýnt er að varast að nudda börnunum upp úr sektarkenndinni, skömminni og ónotunum vegna eigin hegðunar því þá geta þau hneigst til að fara að afsaka sig og jafnvel réttlæta hegðun sem þeim finnst sjálfum óréttlætanleg. Barnið fer ef til vill að kenna öðrum um („hann byrjaði ...“), gera minna úr hlutunum („ég gerði bara aðeins ...“), afsaka sig („þetta var óvart ...“), fara í vörn („þú ert alltaf að skamma mig ...“) eða gera gagnárás („þú gerðir líka svona einu sinni við mig ...“) o.s.frv.
Það sem slík viðbrögð eiga sameiginlegt er að barnið gerir minna úr ábyrgðinni á eigin hegðun en efni standa til. Í stað þess að læra og þroskast og íhuga bragarbót gerir það minna úr alvöru þess sem gerst hefur. Hættan er sú að þegar barnið afsakar sig og réttlætir hegðun sína fyrir þér gerir það einnig minna úr henni í eigin huga. Þá glatast tækifærið til að hjálpa barninu að læra af reynslunni.