📖
Útskýring þarf ekki að vera afsökun (taka tvö)
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Hugur var sendur til deildarstjórans. Það hafði gerst nokkrum sinnum í fyrra þegar hann var í fyrsta bekk, stundum af því hann hafði verið með læti í röðinni og ekki viljað tolla á sínum stað.
Það sem hafði gerst í dag var að þegar Hugur var að klæða sig í stígvélin til að fara út í frímínútur rakst Alda bekkjarsystir hans í hann svo hann missti jafnvægið og datt. Hann meiddi sig aðeins, ekki mikið, en snöggreiddist. Hann stóð upp og ýtti við Öldu svo hún datt líka en honum dauðbrá þegar hann sá að Alda lenti harkalega á bekknum fyrir aftan hana og fór að hágráta.
Hugur sá strax eftir því sem hann gerði. Hann ætlaði að biðja Öldu afsökunar þegar skólaliðinn kom að þeim.
„Hvað gerðist?“ spurði skólaliðinn. „Er það rétt sem ég sá; ýttirðu við Öldu?“
„Það var óvart,“ sagði Hugur. „Ég ætlaði ekki að meiða hana, ég sá ekki bekkinn.“
„En ég sá að þú ýttir við henni,“ sagði skólaliðinn.
„Hún ýtti mér fyrst og ég datt á gólfið og meiddi mig svo ég ýtti við henni,“ sagði Hugur.
„Það var sem sagt óvart að þú ýttir svona fast við Öldu og að hún meiddi sig svona við að detta á bekkinn.“
Hugur samsinnti með því að kinka kolli.
„En hvað ætlar þú þá að gera núna? Alda er grátandi vegna þess að hún meiddi sig þegar hún datt á bekkinn.“
Hugur vissi alveg hvað hann átti að gera og hann vildi það líka.
„Fyrirgefðu, Alda,“ sagði hann. „Ég ætlaði alls ekki að meiða þig.“
„Þetta var gott hjá þér, Hugur minn,“ sagði skólaliðinn.
„En af því að Alda meiddi sig þá verð ég að láta Báru deildarstjóra vita. Hún hefur svo samband heim til þín.“
Hugur vissi að mamma hans yrði reið. Hún varð alltaf reið þegar eitthvað kom upp á í skólanum. Hann hafði oft lofað að hegða sér vel en henni fannst hann vera að svíkja loforðin þegar eitthvað gerðist. Kannski myndi hún banna honum að fara út í dag, einmitt þegar hann og Heiðar ætluðu að leika eftir skóla.
Mamma beið hans þegar hann kom heim úr skólanum.
„Sæll, Hugur minn, mikið var ég leið þegar Bára hringdi. Hún sagði að þú hefðir ýtt við Öldu sem meiddi sig þegar hún datt á bekkinn sem var fyrir aftan hana. En hún sagði mér líka að þú hefðir strax beðist afsökunar og það fannst mér mjög gott að heyra.“
Hug létti, mamma var ekkert reið. Það var líka alveg óvart að hann meiddi Öldu.