Útskýring þarf ekki að vera afsökun (taka eitt)

📖

Útskýring þarf ekki að vera afsökun (taka eitt)

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Hugur var sendur til deildarstjórans. Það hafði gerst nokkrum sinnum í fyrra þegar hann var í fyrsta bekk, stundum af því að hann hafði verið með læti í röðinni og ekki viljað tolla á sínum stað.

Það sem hafði gerst í dag var að þegar Hugur var að klæða sig í stígvélin til að fara út í frímínútur rakst Alda bekkjarsystir hans í hann svo hann missti jafnvægið og datt. Hann meiddi sig aðeins, ekki mikið, en snöggreiddist. Hann stóð upp og ýtti við Öldu svo hún datt líka en honum dauðbrá þegar hann sá að Alda lenti harkalega á bekknum fyrir aftan hana og fór að hágráta.

Hugur sá strax eftir því sem hann gerði. Hann ætlaði að biðja Öldu afsökunar þegar skólaliðinn kom að þeim.

„Sérðu hvað þú gerðir, Hugur?“ sagði hún. „Geturðu aldrei verið til friðs, nú ertu búinn að stórslasa Öldu. Viltu koma þér strax út og svo læt ég deildarstjórann vita, þú ferð til hennar um leið og þú kemur inn úr frímínútunum. Mamma þín fær sko líka að frétta af þessu.“

Hug brá.

„Já, en hún byrjaði ... “ sagði hann.

„Vertu ekki að reyna að kenna Öldu um þetta, ég horfði á þig hrinda henni,“ sagði skólaliðinn. „Komdu þér svo út, strax!“

Hugur fór út í frímínútur bæði reiður og leiður. Það hafði rignt um morguninn og því var fullt af pollum á leikvellinum. Hann fór að stappa í þá og var alveg sama þótt það skvettist upp á buxurnar hans. Hann langaði að gera eitthvað sem honum hafði oft verið bannað.

Hug leið illa á leiðinni heim. Hann hafði farið til Báru deildarstjóra um leið og hann kom inn úr frímínútum. Bára hafði svo sem verið ágæt en hún hafði ekki hlustað almennilega á hann, látið hann sitja á stól inni hjá sér meðan hún var að vinna. Hann heyrði líka þegar hún hringdi í mömmu hans og sagði að Hugur væri hjá sér eina ferðina enn.

„Þetta gengur ekki lengur,“ sagði Bára við mömmu hans.

„Hugur veður bara um eins og honum sýnist og ef einhver er fyrir honum fær sá að kenna á því. Og honum virðist alveg sama.“

Þegar Hugur reyndi að segja Báru hvernig þetta hafði atvikast og að honum væri alls ekki sama vildi hún ekki heyra neinar afsakanir. Hann yrði að fara að hugsa sinn gang, sagði hún.

Hugur vissi að mamma hans yrði reið. Hún varð alltaf reið þegar eitthvað kom upp á í skólanum. Hann hafði oft lofað að hegða sér vel en henni fannst hann vera að svíkja loforðin þegar eitthvað gerðist. Kannski myndi hún banna honum að fara út í dag, einmitt þegar hann og Heiðar ætluðu að leika eftir skóla.

Mamma beið hans þegar hann kom heim úr skólanum.

„Af hverju getur þú aldrei hætt að láta svona, Hugur? Bára hringdi enn eina ferðina í dag. Þú stórslasaðir hana Öldu.“

Þetta var það fyrsta sem mamma sagði við hann.

„Ég var ekkert að stórslasa hana,“ svaraði Hugur. „Hún byrjaði, hún hrinti mér.“

Hug langaði mest til að gráta. Af hverju gerði fullorðið fólk alltaf svona mikið úr öllu? Alda hafði jafnað sig fljótt og farið aftur út í frímínútur að leika sér með krökkunum. Núna var Bára búin að segja mömmu hans að þetta væri eitthvað svo alvarlegt. Það var ekki satt. Hann langaði til að segja mömmu að hann sæi eftir að hafa ýtt við Öldu og að það hefði verið fastar en hann ætlaði. Hann hefði heldur ekki séð bekkinn fyrir aftan Öldu, hún hafði meitt sig mest við að detta á hann. Hann reyndi, en mamma hlustaði ekki.

„Alltaf þessar afsakanir,“ sagði mamma, „en núna sást til þín, sagði Bára mér. Það var þarna skólaliði sem horfði á þig hrinda henni. Þú ferð ekkert meira út í dag, þú verður að hugsa þinn gang og taka þig á. Farðu inn í herbergi og vertu þar, ég vil ekki sjá þig, ég er svo reið.“

Inni í herbergi fann Hugur hvernig reiðin sauð í honum. Þetta var alltaf svona, enginn hlustaði á hann. Alda var grenjuskjóða sem klagaði hann alltaf, skólaliðinn laug upp á hann og allir voru á móti honum. Hann ætlaði sko ekki að láta fara svona með sig, hann skyldi hefna sín.