⭐️
Um Hugo
Hugo Þórisson var barnasálfræðingur sem sérhæfði sig í samskiptum foreldra og barna. Alla sína tíð lét hann málefni barna sig miklu varða og helgaði starf sitt því að hjálpa þeim.
Ásamt því að vinna beint með börnum vann hann að því að aðstoða og fræða foreldra.
Til dæmis héldu Hugo og Wilhelm Norðfjörð fyrirlestraraðir fyrir áhugasama foreldra undir heitinu "Samskipti foreldra og barna" í fjöldamörg ár.
Hugo reyndi einnig að miðla af þekkingu sinni á víðtækan hátt svo hún gæti nýst foreldrum og börnum í öllum kimum samfélagsins. Þannig var hann tíður gestur í Bítinu á Bylgjunni, skrifaði opna pistla á heimasíðu sína og stofnaði síðar fyrirtækið Hollráð Hugos.
Undir því nafni gaf Hugo út bókina Hollráð Hugos, DVD diskinn "Samskipti foreldra og barna" með upptöku af fyrirlestri og í samvinnu við Þorstein J. gerði hann sjónvarpsþættina Hollráð Hugos.
Mest af öllu var Hugo Þórisson samt bara pabbi okkar.
Nú langar okkur, börnunum hans Hugos, að koma öllu þessu efni sem hann vann að til þeirra sem gætu nýtt sér það. Því höfum við sett þessa síðu í loftið og sett hér inn það efni sem við höfum undir höndum eftir pabba.
Við erum að vinna í að koma meira efni inn á síðuna, en við vitum að efni liggur á mörgum stöðum.
Ef þú lumar á einhverju áður útgefnu efni, s.s. viðtali eða upptöku af pabba og vilt koma því áfram hafðu samband við haraldur@hugosson.is