Hvernig tekur þú á móti barninu þínu? (taka eitt)

📖

Hvernig tekur þú á móti barninu þínu? (taka eitt)

Hugur var mjög sár út í Birki vin sinn. Þeir höfðu verið að leika sér heima hjá Birki, í leik sem Birkir valdi. Þegar þeir voru búnir í þeim leik vildi Hugur fá að ráða í hvaða leik þeir færu næst. En Birkir vildi aftur ráða.

„Þetta er alltaf svona,“ hugsaði Hugur á leiðinni heim.

„Birkir vill alltaf fá að ráða þegar við erum heima hjá honum.“ Hann reiddist Birki í huganum. Þetta var ekki réttlátt því hann mátti líka stundum fá að ráða þótt þeir væru að leika sér heima hjá Birki. Hann fékk oft að ráða í hvaða leik þeir færu þegar þeir léku sér heima hjá Hug.

Hugur var enn að hugsa þetta, sár og reiður, þegar hann kom heim. Hann mundi því ekki eftir því að það var margbúið að segja honum að loka útidyrahurðinni varlega ef ske kynni að litli bróðir hans væri sofandi. Hann lokaði henni því fullfast þegar hann kom heim.

„Hvað á þetta að þýða, Hugur?“ sagði pabbi hans reiðilega þar sem hann sat og var að gefa litla bróður að borða. „Ef litli bróðir þinn hefði verið sofandi hefði hann hrokkið upp við lætin í þér. Hversu oft er búið að segja þér að skella ekki hurðinni svona?“

Hugur, sem var enn reiður út í Birki, brást illa við. Hann hafði vonast eftir að vera huggaður þegar hann kæmi heim.

„En hann var ekkert sofandi,“ sagði hann önuglega við pabba sinn. „Og svo skellti ég ekkert hurðinni.“

Pabbi hans tók þessu illa og reiddist á móti.

„Þú vissir ekkert hvort hann væri sofandi þegar þú skelltir hurðinni. Ég vil heldur ekki hafa þennan tón við mig þegar ég er að segja þér til. Farðu inn í herbergið þitt og vertu þar. Þú verður að fara að hlusta á það sem er sagt við þig.“

Pabbi hélt áfram að gefa litla bróður að borða.

Allt í einu leið Hug eins og hann væri aleinn í heiminum.

Í stað þess að koma heim og geta sagt pabba hvað var að, var pabbi reiður við hann og skammaði hann. Þetta var líka litla bróður að kenna. Eftir að hann fæddist þurfti Hugur alltaf að passa sig á hvað hann gerði eða skildi eftir á gólfinu og þegar hann gleymdi sér var hann alltaf skammaður. Hann fann að hann varð líka reiður út í litla bróður sem sat hjá pabba og fékk að borða í rólegheitum. Svo myndi pabbi segja mömmu að Hugur hefði skellt hurðinni og ekki viljað hlusta á sig og mamma myndi koma og skamma hann líka.

Hugur fór að gráta, þetta var ekki réttlátt.