📖
Sælla er að gefa en þiggja
Í uppeldi barna vörpum við oft fram setningum eins og
„sælla er að gefa en þiggja“ til að leggja áherslu á að börnin læri og þroski með sér þá hugsun og upplifun. Þetta er mikilvægt.
Mér finnst einnig mikilvægt að kenna börnum þessa hugsun á fjölbreytilegri hátt, t.d. með því að sýna því jafnmikinn (eða meiri!) áhuga sem þau gefa í jólagjöf og því sem þau fá í jólagjöf.
Það gerum við með því að spyrja þau eftir jól:
„Hvað gafst þú í jólagjöf?“ jafnoft (eða oftar!) og við spyrjum:
„Hvað fékkst þú í jólagjöf?“
Við vitum að ósjaldan hafa börnin unnið að því að búa til gjöf fyrir foreldra, systkini, afa eða ömmu í marga daga, jafnvel vikur eða mánuði. Þau hlakka mikið til að sjá viðtakandann opna pakkann frá þeim og sjá gleðina og ánægjuna lýsa úr svip hans. Þau hafa ef til vill velt því lengi fyrir sér hvað hann langi í.
Sýndu þessu frumkvæði þeirra þá virðingu, skilning og áhuga sem felst í spurningunni:
„Hvað gafstu í jólagjöf?“ Gleðileg jól!