Skammarkrókur, einvistun, samtal, skammir, 1,2,3 eða ...

📖

Skammarkrókur, einvistun, samtal, skammir, 1,2,3 eða ...

Skammarkrókur, einvistun, samtal, skammir, 1,2,3 eða ...

Börn gera mistök. Börn brjóta reglur. Börn gera ekki það sem þau eiga að gera. Börn gera það sem þau eiga ekki að gera. Börn gegna ekki.

Allt þetta kemur einhvern tíma fyrir öll börn og flestir foreldrar velta fyrir sér hvernig rétt sé að bregðast við.

Það er auðvitað háð aldri og þroska barnsins hvað foreldrarnir velja að gera og vonandi íhuga þeir viðbrögð sín gaumgæfilega.

Lykilatriðið í mínum huga er að foreldrar hugi vel að því við slíkar kringumstæður hvað þeir vilja að börnin læri af viðbrögðum þeirra, bæði beint og óbeint. Þess vegna tel ég mikilvægt að hafa eftirfarandi atriði í huga þegar þú ákveður hvernig best sé að bregðast við óæskilegri hegðun barnsins þíns.

*** Viðbrögðin þurfa að hafa áhrif**

Það segir sig sjálft að viðbrögðin verða að skila árangri. Barnið þarf að læra að breyta hegðun sinni. Í gegnum tíðina hef ég heyrt af mörgum aðferðum sem hafa verið notaðar og eru réttlættar með röksemdinni: „Það virkaði, þar með hlýt ég að hafa gert rétt.“

Aðferðir á borð við að setja barn í kalda sturtu, láta það bíta í sápu, henda því inn í herbergi, hátta það ofan í rúm um miðjan dag, slá barnið, rassskella það, öskra á það eða hóta því að barnaverndarnefnd taki það af heimilinu eru því miður ótrúlega algengar. Allar slíkar aðferðir gefa barninu til kynna að þegar einhver gerir eitthvað af sér þá sé það réttur hins sterkari að beita valdi til að fá sitt fram.

Aðferðin getur virkað, að minnsta kosti um skamman tíma og ef til vill lengur. Ég tel það ekki næg rök og að ekki sé minna um vert að íhuga eftirtalin atriði í því sambandi.

*** Viðbrögðin mega ekki hafa neikvæð áhrif á sjálfsmynd barnsins**

Þegar börn brjóta af sér, gegna ekki eða gera eitthvað í leyfisleysi er það sjaldnast vel ígrunduð hegðun, sérstaklega þegar yngri börn eiga í hlut. Í upphafi má flokka flest „brot“ barna á reglum sem óvitaskap, löngun til að prófa að gera eins og fullorðna fólkið, viðbrögð við reiði, leiða eða vanlíðan af einhverjum ástæðum. Stundum hefur barninu verið umbunað fyrir slíka hegðun áður með því að til dæmis systkinum hafa fundist viðbrögð litla krílisins

„fyndin“ eða „sæt“. Smám saman eru viðbrögðin ekki lengur „sæt“, heldur óleyfileg og þá taka við skammir og refsingar. Það er ósanngjarnt gagnvart barninu og því verður að beita aðferðum sem eru til þess fallnar að laða fram betri hegðun en forðast um leið að barnið upplifi sig sem erfitt, óþægt, frekt eða tillitslaust.

*** Tengsl foreldra og barns**

Það er mikilvægt að hafa hugfast að það getur ýmist styrkt eða skaðað tengsl barnsins við foreldra hvernig þeir bregðast við hegðun þess. Jákvæð viðbrögð skapa hjá barninu virðingu fyrir foreldrinu, skapa traust og styrkja tengslin. Refsiviðbrögð foreldra skapa fremur kvíða og ótta og geta leitt til undirferlis, feluleiks, ósanninda og lyga af hálfu barnsins til að koma sér hjá ábyrgð á gjörðum sínum.

*** Þroski barnsins og það sem það lærir**

Viðbrögð foreldra við því að barnið gegnir ekki kenna því hvernig það getur brugðist við í svipuðum aðstæðum. Barn lendir óhjákvæmilega í erfiðleikum í samskiptum við aðra af og til, bæði fullorðna og önnur börn. Það á oft við í systkinahópi, vinahópi, í leikskóla, frímínútum, afmælisveislum og alls kyns leikjum að aðrir vilja ekki gera eins og barnið vill eða gera það sem barnið vill ekki.

Ef barnið hefur lært að við ágreining sigri annar en hinn láti í minni pokann þá er hætt við að barnið hegði sér í samræmi við það. Annaðhvort reynir það að sigra í átökunum eða gefst upp og „leyfir“ hinum að sigra. Ekki er heldur óalgengt að sjá slíka hegðun í samskiptum systkina, þ.e. að systkini reyni að sigra hvert annað en leitist við að ná sér niðri á hinu(m) á einhvern hátt ef þau tapa. Því er mikilvægt að allir foreldrar íhugi vandlega hvað barnið lærir af því hvernig þeir taka á erfiðri hegðun þess. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft!

Vilji foreldrar að barn kunni að leysa úr ágreiningi á ábyrgan og þroskaðan hátt verða þeir sjálfir að leysa úr ágreiningi við barnið á ábyrgan og þroskaðan hátt.

*** Hafðu þetta hugfast sem foreldri:**

Láttu það ekki koma þér á óvart að barnið þitt geri eitthvað af sér. Gríptu ekki til tilviljunarkenndra úrræða vegna þess að þú hefur ekki búið þig undir hvernig þú telur réttast að bregðast við. Vertu þér meðvitandi um það sem barnið lærir af „kennslunni þinni“.

Eru viðbrögð þín við erfiðri hegðun barns líkleg til að stuðla að því að það breyti hegðun sinni og taki oftar tillit til annarra? Eru viðbrögð þín til marks um skilning á líðan barns sem sýnir af sér óásættanlega hegðun? Auka viðbrögðin líkur á að barnið vilji hegða sér betur? Treystir barnið þér betur og virðir þig frekar eftir en áður? Viltu sjá svipuð eða sömu viðbrögð hjá barninu þegar aðrir

„gegna“ því ekki?

Hafðu í huga að viðbrögð þín við erfiðri hegðun þurfa að vera í samræmi við uppeldisviðhorf þín almennt. Varastu að grípa til aðferða sem einhver hefur sagt þér að hafi virkað annars staðar og eru ef til vill ekki í neinu samræmi við það sem barnið býst við af þér.

Viljir þú að barnið gegni þér fullt af trúnaðartrausti, skilningi, virðingu, jákvæðri reynslu og öryggi skaltu nota aðferðir sem stuðla að því. Viljir þú hins vegar að barnið gegni þér af óttablandinni virðingu, óöryggi, hræðslu og kvíða skaltu beita aðferðum sem stuðla að því.