Samningur/samkomulag um breytta hegðun barns

📖

Samningur/samkomulag um breytta hegðun barns

Þegar hegðunarerfiðleikar steðja að ber það oft árangur að gera samkomulag við barnið um að það breyti hegðun sinni. Yfirleitt er best að gera það í einrúmi með barninu þegar foreldri hefur til þess hentugt svigrúm. Gættu þess að hafa góðan tíma og að þið verðið ekki fyrir truflunum.

Tökum sem dæmi tíu ára dreng sem vanrækir ítrekað skyldur sínar á heimilinu, svo sem að búa um, taka til í her- berginu sínu, hann skilur föt o.fl. eftir á gólfinu, gengur ekki frá eftir sig þegar hann hefur fengið sér að borða o.s.frv.


Núverandi hegðun

Talaðu við drenginn þinn (alltaf af virðingu). Þú verður að orða hlutina þannig að hann treysti þér. Hann verður að skynja að þú sért að tala af virðingu og einlægni, umhyggju og hlýju en jafnframt festu og ákveðni. Gættu vel að raddblænum, sérstaklega ef eitthvað hefur komið upp á nýlega. Gættu að svipbrigðum þínum og gefðu gaum að umgjörð samtalsins. Best er að velja sem kunnuglegastar aðstæður, í herberginu hans, úti að labba, í bíltúr eða annars staðar þar sem þú veist að þið verðir ekki fyrir truflun.

Þú skalt gera drengnum grein fyrir því um hvaða hegðun er að ræða og mundu að velja aðeins eitt af því sem þér finnst að. Lýstu hegðuninni með skýrum hætti og gættu þess að segja það sem þú meinar, meina það sem þú segir og orða það þannig að drengurinn vilji hlusta á þig.

Segðu til dæmis:

„Þegar þú skilur töskuna þína eftir á gólfinu fyrir framan dyrnar í forstofunni ...“ eða

„Þegar þú færð þér að borða og skilur glasið og diskinn eftir inni í stofu ...“

Ekki segja:

„Þegar þú gengur aldrei frá neinu eftir þig ...“ eða

„Það er bara allt eins og í svínastíu eftir þig ...“

Forðastu að hanka drenginn þinn eða króa hann af með setningum á borð við:

„Finnst þér allt í lagi að koma svona fram við aðra? Hvað fyndist þér ef allir gengju svona um, hvernig heldur þú að heimilið liti út þá? Myndir þú vilja það? Er það þannig heim- ili sem þú vilt?“

Fyrirmælin til drengsins verða að vera einföld og skýr: Þessa hegðun verður að bæta, erfiðleikunum verður að linna. Öðrum líði illa undir þessum kringumstæðum. Bæði sé erfitt að koma heim á daginn og sjá að þar bíða fleiri verk en þegar farið var að heiman að morgni og einnig valdi það vanlíðan að drengurinn hafi tekið eitthvað að sér og lofað og lofað og svikið það. Þú vilt líka að þessi hegðun hætti, hún trufli þig mikið.

MUNDU: Markmiðið er ekki að koma inn sektarkennd hjá drengnum, það skaltu raunar forðast eins og hægt er. Gakktu út frá því að hann sé ekki meðvitaður um áhrifin af eigin gerðum, treystu því að hann vilji ekki vera þess valdandi að öðrum líði illa.

Þú skalt búast við því að hann reyni að trufla samræðurnar og helst stjórna þeim með því að drepa málinu á dreif. Nokkrar þekktar gildrur eru:

„Af hverju skammar þú bara mig?“

„Það er ekki bara ég!“

„Hver sagði það?“

Þá þarft þú að sýna ákveðni og festu og segja ítrekað:

„Núna er ég að tala um þessa hegðun þína við þig.“ Gættu þess að tala aldrei við eitt barnanna þinna í fleirtölu, eins og sumum foreldrum hættir til, blanda þannig öðrum inn í „pirringinn“ og segja jafnvel við eitt barnið:

„Það er eins og ykkur sé alveg sama hvernig heimilið lítur út!“ Gættu að því hvort drengurinn reynir að draga úr eigin ábyrgð með því að segja „við“ þegar þú ert að tala við hann einan. Til dæmis með því að segja:

„Við vorum bara að djóka.“ Mundu þá að segja:

„Núna er ég bara að tala um það sem þú gerir.“


Áætlun um breytingu

Þegar þér finnst sem drengurinn geri sér grein fyrir um hvaða hegðun er að ræða þarft þú að kenna honum að taka ábyrgð á hegðuninni og breyta henni. Setning á borð við:

„Þú verður að hætta að láta svona,“ er bæði mjög ómark- viss og elur á ábyrgðarleysi. Ábyrgð drengsins felst í því að hann hugsi sjálfur um breytinguna á eigin hegðun.

Þú spyrð því:

„Hvernig treystir þú þér til að breyta þessu, þannig að þú gangir frá eftir þig þegar þú ert búinn að fá þér að borða eftir að þú kemur heim úr skólanum á daginn?“

Markmiðið er að fá hugmyndir frá honum, ekki setja fram þínar tillögur. Drengurinn er miklu líklegri til að láta eigin tillögur um lausnir verða að veruleika en að leggja mikið á sig til að láta þínar hugmyndir rætast.

Þegar drengurinn þinn setur fram tillögur að breytingu skaltu gæta þess að þær séu um breytta hegðun. Of oft eru tillögur í þeim dúr að barnið segist ekki ætla að gera eitt- hvað.

„Ég skal hætta að skilja þetta eftir á borðinu“ er ekki til- laga að breyttri hegðun heldur tillaga að því sem hann ætlar ekki að gera. Hann verður að koma með tillögur að breyttri hegðun, hvað hann ætlar að gera. Þú getur hjálpað honum með því að segja:

„En hvað ætlar þú þá að gera þegar þú ert búinn að borða á daginn?“ (mundu virðingu í raddbeitingunni).

Vísast segir hann:

„Það veit ég ekki,“ eða segir ekki neitt. Þá máttu ekki falla í þá gryfju að leggja fram tillögur og lausnir fyrir hann. Láttu drenginn finna hugmyndirnar sjálfan. Oftast liggur ekkert á, segðu honum að hugsa sig um smástund eða tala við þig á morgun. Hafðu í huga að biðja hann að gera til- lögur sínar skriflega. Það skapar oft meiri ábyrgðartilfinn- ingu ef lausnirnar eru komnar á blað.


Samningur um framkvæmd

Næsta skref er að hjálpa drengnum þínum að gera sér grein fyrir hvernig framkvæma megi tillögurnar. Spurningar á borð við:

„Hvernig sérð þú fyrir þér að þetta geti gerst?“ og fleiri í þeim dúr hjálpa honum að gera sér enn betur grein fyrir hvernig þessi breytta hegðun verður í framkvæmd. Til dæmis með því að segja:

„Segjum sem svo að nú sért þú búinn að fá þér að borða, hvernig heldur þú að þú getir best munað eftir að ganga frá eftir þig?“

„Nú ert þú að koma heim með töskuna, hvað getur þú gert til að muna eftir að setja hana á sinn stað?“ (Mundu virðingartóninn í röddinni).

Hlustaðu vel á það sem drengurinn segir og hvernig hann svarar. Segðu:

„Þetta líst mér vel á“ eða „ég veit ekki alveg ... ég held að það geti orðið þér erfitt að gera þetta svona“ – allt eftir því sem við á.

Reyndu að aðstoða drenginn þinn við að brjóta hegðunina niður í styttri skref, til dæmis:

„Nú ertu búinn að borða og ert að fara að læra. Þá hef ég oft heyrt þig segja að einhver hafi komið eða hringt eða þú hafir verið að fara að læra og gleymt að ganga frá eftir þig. Hvað getur þú gert næst til að það komi ekki fyrir?“

Mundu enn sem fyrr að þið eruð að tala um það sem á að gera, en ekki það sem á ekki að gera.

Samningurinn er á milli þín og drengsins. Þú segir engum (nema hinu foreldrinu, ef það er til staðar) frá samningnum og talar ekki um hann við aðra sem þú hittir eða talar við í síma.


Mat á árangri

Þegar þú telur að drengurinn hafi sett fram tillögur sem hann treystir sér til að framkvæma og þú telur líklegar til árangurs er komið að því að veita stuðning og aðhald.

Segðu við hann að þú viljir hitta hann út af þessum samn- ingi eftir tiltekinn tíma, til dæmis tvo eða þrjá daga eða viku – allt eftir aldri og þroska – og ítrekaðu um hvað samning- urinn snýst. Hafðu tímann samt ekki lengri en svo að það hafi reynst drengnum auðvelt að standa sig. Markmiðið með því að ákveða tíma til að hittast aftur er að fara yfir hvernig hefur gengið.

Þú mátt aldrei taka á þig ábyrgðina á því að drengurinn þinn standi við samninginn yfir tímabilið sem var ákveðið. Of margir nota samkomulagið gegn barninu með því að segja þegar það gleymir sér:

„Þú ert nú ekki að fara eftir því sem þú ætlaðir þér.“ Það getur skapað viðhorfið „mér er alveg sama, mér finnst þetta asnalegt“ ef barninu finnst þú vera að „hanka“ það.

En þú ert ekki að hanka strákinn þinn eða láta hann finna að hann geti ekki staðið við það sem hann ætlar sér, heldur ert þú að hjálpa honum að losna út úr vítahring hegðunar sem er ekki bara óásættanleg fyrir þig, heldur aðra á heim- ilinu og að öllum líkindum fyrir hann sjálfan.


Endurmat á áætlun, framhald

EF tekist hefur vel til og hegðunin hefur breyst, þá er mikil- vægt að hrósa drengnum fyrir hvernig til tókst. Ræddu við hann og spurðu til dæmis:

„Hvernig var þetta?“

„Fannst þér erfitt að standa við áætlunina?“

„Var þetta auðveldara en þú bjóst við?“

Sýndu því virkilega áhuga ef vel hefur gengið. Athugaðu hvort hann sé tilbúinn í annan jafnlangan samn-

ing um sömu atriði, jafnvel hvort honum hafi dottið eitt- hvað annað í hug í staðinn fyrir eða til viðbótar við það sem fyrri samningur snerist um.

EF tekist hefur illa til er mikilvægt að láta í ljós viðhorf- ið:

„Þetta var erfiðara en þú bjóst við“ eða eitthvað í þeim dúr.

Forðastu ásakanir og að gera lítið úr vilja eða áhuga drengs- ins til að breyta. Ræddu málin og hlustaðu vel eftir því hvað honum reyndist erfitt. Þú skalt ekki taka afsakanir gildar, heldur hlusta án þess að samþykkja þær. Markmiðið er að koma umræðunni aftur af stað, segja til dæmis:

„Hvað getur þú þá gert núna? Þetta verður jú að breytast.“

Gerðu drengnum ljóst að hann sleppur ekki, óbreytt hegðun verður ekki liðin.

Stundum þarf að endurtaka ferlið oftar en einu sinni með sumum börnum. Þegar drengurinn þinn er farinn að sýna breytta hegðun er kannski ekki nauðsynlegt að ræða málið á þriggja daga fresti eða vikulega, lengdu tímann í hálfan mán- uð og síðan getið þið rætt málin svona af og til.

Mundu (og gleymdu því ekki!) að hafa orð á breyttu hegð- uninni löngu eftir að samningurinn er útrunninn. Drengn- um þínum finnst örugglega gott að finna virðingu og viður- kenningu á jákvæðri hegðun sinni.


Ekki gefast upp

Þetta getur verið erfiðasti þátturinn í ferlinu. Líttu svo á að þér hafi ekki tekist nógu vel upp ef drengnum hefur gengið illa. Farðu yfir hvernig þú fórst að, hvað mátti betur fara – og reyndu aftur. Það er mikilvægt að þeir sem ekki kunna að taka tillit til annarra fái aðstoð til þess.