📖
Rifrildi
„Af hverju fer þetta alltaf svona?“ hugsaði Hugrún. Enn einu sinni hafði hún lent í rifrildi við mömmu sína.
Hugrún hafði verið að koma heim úr skólanum og fengið sér að borða. Hún ákvað að bregða sér aðeins á Facebook í tölvunni áður en hún gengi frá eftir sig. Henni brá þegar hún heyrði allt í einu að mamma hennar var að koma upp tröppurnar og fylltist kvíða. Hverju myndi mamma byrja að skammast yfir núna?
Fyrr en varði kom mamma inn og það var eins og fyrri daginn, hún byrjaði að rífast um leið og hún kom inn úr dyrunum.
„Af hverju getur þú aldrei gengið frá eftir þig?“ sagði hún.
„Það er sko ekkert skemmtilegt að koma dauðþreytt heim úr vinnunni og sjá heimilið eins og svínastíu. Er þér alveg sama hvernig lítur út hérna?“
„Ég geng oft frá eftir mig,“ svaraði Hugrún. Hún þoldi ekki hvað mamma var fljót að alhæfa og gleyma því sem Hugrún hafði gert. Það var ekki lengra síðan en á föstudaginn í síðustu viku að hún hafði tekið vel til í eldhúsinu og stofunni áður en mamma kom heim.
„Ég fór bara aðeins í tölvuna til að skoða hvað er að læra fyrir morgundaginn,“ sagði hún afsakandi.
„Tölvuna, já! Þú ert alltaf í tölvunni að tala við krakkana eða skoða eitthvað. Ég sé þig aldrei læra. Allir aðrir krakkar sem ég þekki þurfa að læra heima þegar þeir eru komnir í 9. bekk.“
Svona hafði þetta haldið áfram. Mamma hennar reifst og skammaðist. Ef það var ekki þetta þá var það hitt. Hún virtist hafa af nógu að taka. Að lokum leið Hugrúnu svo illa, hún var svo sár og reið að hún öskraði nánast á mömmu sína:
„Þú ert alltaf að rífast í mér. Það er aldrei neitt nógu gott sem ég geri.“ Hún æddi inn í herbergi og skellti á eftir sér. Hugrúnu leið bölvanlega þar sem hún sat inni í herberginu sínu. Ef hún hefði nú bara verið búin að taka saman eftir sig, þá hefði þetta aldrei farið svona. Og af hverju gerði mamma alltaf svona mikið mál úr öllu? Ef hún var eitthvað þreytt
byrjaði hún að skammast um leið og hún kom heim. Hugrúnu langaði að sættast við mömmu sína en hún vildi samt ekki sitja uppi með þá tilfinningu að hafa tapað fyrir henni. Ó, hvað hún óskaði þess að mamma kæmi til hennar, tæki utan um hana og segði hvað hún væri leið yfir að þetta skyldi hafa farið svona milli þeirra.
En af því að Hugrún var enn reið út í allt það sem mamma hennar hafði sagt þá brást hún við með því að gera skarkala inni í herberginu til að minna mömmu á sig. Hún ýtti stólnum hastarlega til svo það hlaut að heyrast fram og þegar það vakti engin viðbrögð hækkaði hún í græjunum og skellti til hlutum á skrifborðinu.
Þetta hafði tilætluð áhrif. Hugrún heyrði mömmu sína ganga að hurðinni. En í stað þess að koma inn og sættast við Hugrúnu – það þráði hún mest af öllu – gerðist þetta: Mamma reif upp hurðina og sagði ákveðið og reiðilega:
„Hvaða bölvuð læti eru þetta í þér stelpa, ætlarðu að eyðileggja allt hérna inni?“
Það fauk undir eins í Hugrúnu, mamma hennar ætlaði greinilega ekki að sættast heldur halda rifrildinu áfram. Þá það, en hún ætlaði þá ekki að tapa.
„Farðu fram,“ sagði hún hvasst við mömmu sína.
„Ég fer ekkert fram,“ sagði mamma hennar höstuglega.
„Farðu, þetta er mitt herbergi,“ sagði Hugrún og varð ennþá reiðari.
„Nei, þetta er ekkert þitt herbergi,“ sagði mamma hennar.
„Veistu ekki hver það er sem borgar af lánunum, hitanum og rafmagninu? Það er aldeilis ekki þú svo þú átt ekkert í þessu herbergi.“
„Farðu, ég er að minnsta kosti sú sem ræð yfir því,“ reyndi Hugrún að mótmæla.
Örvæntingin leyndi sér ekki í röddinni og hún fann sáran sting í hjartanu. Þetta var vissulega ekki það sem hún vildi, alls ekki. Hún vildi ekki rífast við mömmu sína en þetta fór alltaf svona. Þær voru í rauninni ekki lengur að tala um að ganga frá eftir að Hugrún hafði fengið sér að borða, eins og þetta byrjaði, heldur um eitthvað allt annað. Hana langaði svo til að sættast en það var eins og mamma vildi ekki hætta. Hún hélt bara áfram:
„Það væri nú líka félegt ef þú réðir yfir þessu herbergi. Veistu hvernig það liti út ef þú gerðir það? Það væri eins og svínastía, allt út um allt, fötin þín alls staðar, myglaðar matarleifar og það sæist ekki í gólfið fyrir drasli!“
Nú gat Hugrún ekki meira. Hún fól andlitið í höndum sér, beygði sig fram og tárin flóðu. Henni fannst eins og mamma hennar nyti þess beinlínis að rífast í henni, eins og hún fengi útrás við að skamma hana. Þetta var ekki sanngjarnt. Af hverju þurfti þetta alltaf að fara svona?
Lærdómur:
Búðu þig undir það í huganum á leiðinni heim að hlakka til að hitta barnið þitt.
Vertu viðbúin(n) því (eina ferðina enn) að barnið þitt hafi ekki gengið um eins og þú helst óskar.
Kallaðu í jákvæðum tóni: „Halló, ég er kOOooooomin(n),“ þegar þú kemur inn til að láta vita að þér finnist gott að koma Það sýnir líka að þú treystir því að öðrum finnist gott að þú sért komin(n).
Ef þú þarft að taka á einhverju sem varðar hegðun barnsins þíns geymdu það þá þar til síðar. Það er betra að þú nefnir það í áttundu eða elleftu setningu í stað þess að segja það
Vertu fáorð(ur), það er áhrifamest.
Vandaðu orðavalið.
Horfðu í augun á barninu þínu og segðu: „Mér sárnaði þegar ég kom heim áðan og þú hafðir ekki gengið frá eftir þig.“
Ef barnið þitt afsakar sig, hlustaðu þá vel en samþykktu ekki afsökunina eða útskýringuna sem fullnægjandi tafarlaust eða án frekari orðaskipta.
Segðu í mesta lagi einu sinni í viðbót: „En ég vil að þú vitir að mér sárnaði hvernig leit út í eldhúsinu þegar ég kom “
Ekki ræða aðra „óæskilega“ hegðun barnsins þíns á þessari stundu, sama hversu mikið þig langar til þess.
Það sigrar enginn í fjölskyldurifrildi, allir tapa