Mamma reiðist við systur Hugar

📖

Mamma reiðist við systur Hugar

Hugur var að leika sér inni í stofu. Hann var búinn að taka svolítið af dótinu sínu fram og raða því upp á gólfinu. Þótt hann væri upptekinn af leiknum heyrði hann vel í mömmu sinni. Hún var að tala við Huldu systur hans um að hún tæki aldrei til í herberginu sínu.

„Þetta lítur út eins og í svínastíu,“ sagði mamma við Huldu.

„Ef þú verður ekki búin að taka til í dag þá sæki ég svartan plastpoka og tek allt sem liggur á gólfinu og hendi því. Þú átt ekki skilið að eiga svona mikið af fötum og fallegum hlutum ef þú gengur svona um. Ég meina það, ég hendi þessu á morgun ef þú verður ekki búin að taka til þá.“

Hugur heyrði að systir hans fór að gráta og reyndi að verja sig.

„Þú þarft bara ekkert að koma hérna inn, þetta er mitt herbergi, ég ræð hvernig ég vil hafa það,“ sagði hún.

„Þú ræður ekkert yfir þessu herbergi ef þú ætlar að ganga svona um. Herbergið er í íbúðinni okkar og ég vil ekki hafa að nokkurt herbergi líti svona út. Þú getur haft það eins og þú vilt þegar þú ert flutt að heiman en í mínum húsum gilda mínar reglur,“ sagði mamma og var orðin ansi reið. „Og þú gegnir þessu!“

Mamma kom fram og það gustaði af henni.

„Hvað er að sjá draslið hér, Hugur?“ sagði hún reiðilega.

„Hvað er ég oft búin að segja þér að leika þér inni í herberginu þínu? Og talandi um herbergið þitt. Það er líka kominn tími til að þú takir til þar, ég veit ekki hvað ég er oft búin að segja þér að gera það.“

Hug fannst þetta ekki rétt.

„Þú leyfðir mér áðan að leika mér inni í stofu,“ sagði hann sár.

„Ég hélt nú ekki að þú tækir allt dótið sem þú átt og dröslaðir því inn í stofu. Þú veist alveg að það má bara koma með lítið af dóti, stofan er ekki það stór.“

„Þetta er alls ekki allt dótið mitt, þetta eru bara nokkrir bílar og Playmódót,“ sagði Hugur.

Þetta virtist gera mömmu hans enn reiðari.

„Þú veist alveg hvað ég meina,“ sagði hún. „Í guðanna bænum far þú nú ekki líka að rífast í mér. Það er nóg að systir þín geri ekkert af því sem ég segi henni.“

Hugur var sár og leiður. Þetta var alltaf svona. Ef mamma hans var að rífast við Huldu systur hans þá bitnaði það alltaf á honum. Það var alls ekki réttlátt.