📖
Láttu ekki reiðina bitna á þeim sem ekkert hafa gert
Allir þekkja söguna um manninn sem var skammaður af yfirmanni sínum í vinnunni. Þegar hann kemur heim hefur hann allt á hornum sér og skammast út í konuna sína. Hún pirrast og lætur það bitna á eldri börnunum. Þau eldri fara að rífast í yngri systkinunum sem aftur láta gremjuna bitna á hundinum. Hann reynir svo að ná sér niðri á kettinum sem er auðvitað alsaklaus. Og kötturinn endar síðan á því að ráðast á músina.
Mörg börn þekkja þetta. Í fjölskyldunni eru þau valdaminnst og geta oft á tíðum ekki varið sig sem skyldi þegar foreldrarnir skammast í þeim. Það helgast meðal annars af því að börnin hafa ekki sama vald á tungumálinu og þeir eldri og þurfa oft að íhuga lengur hvað þau geta sagt sér til varnar.
Ég heyri börn oft segja hve óréttlátt þeim þykir þegar foreldri er pirrað út í aðra í fjölskyldunni en láti það bitna á þeim.
Foreldrar réttlæta iðulega þennan pirring þannig að fyrir honum séu fullgildar ástæður, sem kann vel að vera. En sé foreldri að skammast í einu barninu sínu, hafi verið að „ræða málin“ („rífast“ í eyrum barnsins) við hitt foreldrið þá er óréttlátt að blanda þeim pirringi saman við eitthvað sem kann að mega finna að öðru barni. Í huga þess barns er það örugglega óréttlátt.
Gættu þess því vandlega að halda aðskildu því sem pirrar þig eða reitir til reiði í gjörðum eins í fjölskyldunni og því sem þér líkar ekki við hjá öðrum.