Listin að segja NEI!

📖

Listin að segja NEI!

Sem foreldri þarftu að geta sagt nei. Það kann að vera vegna þess að börnin vilja eitthvað sem þau geta ekki fengið, mega ekki fá eða þegar þau vilja gera eitthvað sem foreldrið telur ekki æskilegt.

Margir foreldrar eiga í vandræðum með að segja nei. Fyrir því eru ýmsar ástæður, eins og til dæmis þegar börnin hlíta ekki fyrirmælum foreldra sinna, taka ekki mark á þeim eða bregðast illa við. Foreldri fær sig þá ekki til að segja nei og óttast að barnið verði reitt eða ósátt.

Hvað sem því líður þurfa foreldrar oft að segja nei. Uppeldi er ekki vinsældakeppni heldur ábyrgðarstarf þar sem setja þarf reglur og framfylgja þeim.

Til eru góðar og slæmar leiðir til að segja nei. Ein versta leiðin er að fresta því með því að segja ekki nei strax, heldur:

„Við skulum sjá til.“

„Ég skoða það seinna.“

„Ég skal spyrja mömmu þína þegar hún kemur heim,“ eða reyna að fresta svarinu á einn eða annan hátt.

Ef og þegar foreldrar segja svo nei, sárnar barninu og það segir:

„Já, en þú varst búinn að lofa því.“ Barnið skilur óljósa svarið:

„Ég skal spyrja mömmu þína þegar hún kemur heim,“ sem svo að þú hafir sagt:

„Já, ... en ég ætla bara að segja það seinna.“

Þess vegna er mikilvægt fyrir foreldra að geta sagt beint út það sem þeim býr í brjósti. Þeir geta til dæmis notað þetta frábæra svar:

„Það er ekki í boði.“

Það segir barninu að til séu ákveðnir valkostir en að sá sem það óskar eftir sé ekki þar á meðal. Þetta er mjög þægileg leið fyrir mörg börn.

Það er foreldrum nauðsynlegt að geta einfaldlega sagt hreint út: Nei!. Það er jafnframt mikilvægt að hafa í huga að

nei-ið“ má segja á marga vegu. Segðu það þannig að barnið skynji í svarinu virðingu, ákveðni, skilning, umhyggju, ást- úð, alúð, festu og viðlíka skilaboð í þessu eina orði: „Nei“. Það auðveldar barninu að taka banninu.

Forðastu að segja nei af pirringi, reiði, svekkelsi, leiða, depurð, andúð eða þreytu. Þá getur þú verið nokkuð viss um að því verður illa tekið. Það er mikilvægt að segja nei en það er afgerandi hvernig það er sagt til að auðvelda barninu að taka því.

Stundum er hægur vandi að segja „já“ í stað þess að segja

„nei“. Hugsum okkur barn sem á að læra þegar það kemur heim úr skólanum. Það spyr ef til vill fyrst:

„Má ég fara út að leika?“ Margir foreldrar segja þá:

„Nei, þú átt að læra fyrst, þú veist það alveg.“

Heimanámið hljómar þá eins og leiðinleg skylda og það skemmtilega er bannað. En foreldrar hafa annan valkost. Hann er:

„Já, um leið og þú ert búinn að læra.“

Barnið kemur ef til vill rétt fyrir kvöldmat og spyr:

„Má ég fá jógúrt?“

Aftur eru valkostirnir tveir. Sá leiðinlegri fyrir barnið er:

„Nei, við erum að fara að borða rétt strax.“ Hinn á barnið sennilega betra með að sætta sig við:

„Já, þú mátt fá hana með þér í leikskólann á morgun.“ Ein leið til að æfa börn sem eiga erfitt með að fá nei-

svarið er eftirfarandi: Barnið kemur og spyr hvort það megi fara í bíó með vinum sínum. Af ýmsum góðum ástæðum ákveður þú að segja nei en veist mögulega að barnið þitt mun taka því illa. Þú finnur ef til vill kvíðasting í maganum yfir því hvernig viðbrögð barnsins geti orðið. Til að hjálpa hvatvísu barni eða barni sem á erfitt með að stjórna skapinu getur þú sagt heiðarlega:

„Veistu það, ég finn kvíðasting í maganum yfir því að þú verðir reiður ef þú færð ekki það svar sem þú vilt fá. Má ég eiga von á að þú reiðist ef þú færð ekki svarið sem þú vilt fá?“ segir þú sem foreldri og bíður.

Mörg börn sem ég þekki myndu segja í svipuðum aðstæð- um:

„Nei, ég er bara að spyrja, má ég fara í bíó?“ Það er mögulegt að þú þurfir að segja aftur síðar:

„Ertu viss um að þú verðir ekki reiður ef þú færð ekki svarið sem þú vilt fá?“ og barnið svari enn á ný:

„Ég er bara að spyrja.“ Þá gætirðu sagt:

„Ég ætla að segja nei, þú mátt þetta ekki núna. Ertu reiður?“

Mörg börn reyna að kyngja „reiðinni“. Það sést á þeim og heyrist í tóninum þegar þau segja:

„Nei ég var bara að spyrja,“ en að öðru leyti tekst þeim ef til vill betur að halda aftur af sér og taka nei-inu án þess að hvatvísi og reiði stjórni viðbrögðum þeirra.

Það er reynsla mín að börn viti mætavel að foreldrar bæði eiga og þurfa að segja nei. Þeim finnst hins vegar erfitt að taka því þar sem já-ið freistar. Þegar sagt er nei er gott að hafa í huga að börnunum sé gert sem auðveldast að taka því.