Jólasveinar ala upp börnin í desember

📖

Jólasveinar ala upp börnin í desember

Í desember birtast sérlegir aðstoðarmenn foreldranna við uppeldið á yngri börnunum. Það eru jólasveinarnir sem oft eru öllu harðskeyttari en margir foreldrar. Þeir refsa fyrir algenga óþekkt – sem verður jafnvel til þess að börnin drífa sig í háttinn þótt ekki sé nema til að vera sofnuð áður en einhver „kall“ kemur á gluggann hjá þeim:

„Ef þú ert ekki sofnuð fyrir klukkan átta færðu ekkert í skóinn!“

Jólasveinarnir eru hefnigjarnir og þeim er ósýnt með sáttfýsi og fyrirgefningu, ólíkt flestum foreldrum:

„Ef þú ert óþæg færðu kartöflu í skóinn.“

Þeir umbuna þægu börnunum og gera almennt upp á milli barna:

„Ef þú ert duglegur að borða færðu örugglega eitthvað gott í skóinn.“

Sum börn fá mikið í skóinn og önnur ekki. Börnin bera sig saman um skógjafirnar í skólanum og stundum finnst þeim jólasveinarnir frekar óréttlátir.

Mundu ávallt að það ert þú sem þarft að sinna uppeldinu alla hina 352 daga ársins. Því er um að gera að reiða sig ekki um of á jólasveinana í desember – þótt það geti verið mjög þægilegt.