Hvernig gekk þér eða hvernig leið þér í skólanum?

📖

Hvernig gekk þér eða hvernig leið þér í skólanum?

Flestir foreldrar eru áhugasamir um hvernig barninu þeirra vegnar í skólanum. Til að komast að því eru börnin oftast spurð:

„Hvernig gekk þér í skólanum í dag?“

Mörg börn svara af gömlum vana, „bara vel“, og hugsa jafnvel ekkert út í daginn, taka þátt í samskiptunum líkt og af skyldurækni.

Hvað með að breyta út af vananum með því að spyrja barnið næst:

„Hvernig leið þér í skólanum í dag?“

Margir foreldrar vilja raunar frekar, eða ekki síður, vita hvernig barninu þeirra leið í skólanum en hvernig því gekk.

Barni getur nefnilega gengið vel í skólanum án þess að líða endilega vel þar. Þú færð því ef til vill aðrar upplýsingar en ella ef þú breytir til og spyrð eftir líðan barnsins í hinum og þessum kringumstæðum. Til dæmis:

„Hvernig leið þér í afmælinu?“

„Hvernig leið þér á leiðinni heim?“

„Hvernig leið þér um helgina?“

Þessi nálgun kemur barninu einnig til að velta fyrir sér eigin líðan og vera meðvitaðra um tilfinningar sínar. Sem er gott.

Æfðu þig líka á maka þínum, vinum og samstarfsfólki. Spyrðu:

„Hvernig leið þér í vinnunni í dag?“

„Hvernig leið þér á námskeiðinu?“

„Hvernig leið þér í viðtalinu?“