Gönguferð – taka tvö

📖

Gönguferð – taka tvö

„Eigum við að koma út að ganga?“ spurði mamma Hugar,

„það er svo gott veður úti.“

Hugur sem var nýorðinn fimm ára varð mjög glaður þegar mamma hans spurði. Honum fannst svo gaman að fara í gönguferð með pabba og mömmu og litlu systur. Hann gat gengið alveg sjálfur en ekki systir hans, hún var svo lítil að pabbi og mamma óku henni í barnavagninum.

Hugur byrjaði að klæða sig í útifötin. Hann fór fyrst í úlpuna sína og svo setti hann á sig húfuna og vettlingana. Mamma hans þurfti að hjálpa honum að renna upp rennilásnum. Það var oft erfitt fyrir Huga að setja saman rennilásinn, það var eins og hann vildi ekki gegna honum.

Hugur settist síðan á stól í forstofunni og bað mömmu að hjálpa sér í skóna.

„Ég veit að það er stundum erfitt fyrir þig, Hugur minn, að fara sjálfur í skóna en mig langar að biðja þig að vera duglegur og fara sjálfur í þá í dag. Ég þarf að klæða hana systur þína líka.“

Hugur vildi oftast klæða sig sjálfur og núna þegar hann vissi að mamma hans þurfti líka að sinna litlu systur reyndi hann að fara sjálfur í skóna. Hann var ekki lengi að því þegar til kom, það var auðvelt að fara í skóna því þeir voru með frönskum rennilás. Þá þurfti hann ekki að reima þá.

„Mamma, ég er búinn að fara í skóna alveg sjálfur,“ kallaði Hugur.

„Mikið er ég glöð,“ sagði mamma hans, „ég er svo stolt yfir því hvað þú ert duglegur.“

Pabbi var að koma inn eftir að hafa undirbúið barnavagninn.

„Mikið varstu duglegur, Hugur minn, að klæða þig,“ sagði hann og tók utan um Hug.

Þegar mamma var búin að klæða litlu systur og setja hana í vagninn lögðu þau af stað. Þau voru vön að ganga meðfram sjónum og það gerðu þau aftur núna. Þegar þau höfðu farið nokkurn spöl gengu þau fram á mikið af steinum og sandi á göngustígnum. Sumir steinarnir voru mjög stórir.

„Af hverju er svona mikið af steinum hérna, mamma?“ spurði Hugur. Það höfðu aldrei verið steinar á stígnum í hin skiptin sem þau höfðu verið úti að ganga.

„Það hefur verið svo mikill kraftur í sjónum,“ sagði mamma hans, „þegar hann skvettist yfir grjótgarðinn þá hefur hann tekið steinana með sér. Öldurnar geta kastað svona stórum steinum langt, langt upp á land.“

Hugur skoðaði steinana. Skrýtið að vatnið í sjónum gæti verið svo kraftmikið að það kastaði steinum svona langt, hann gæti ekki einu sinni lyft mörgum þeirra.

Það var fullt af steinum sem Hug fannst gaman að skoða. Hann tók einn þeirra upp til að sýna pabba og mömmu. Þá sá hann að þau voru komin langt á undan honum. Þau voru að tala saman, ýttu á undan sér barnavagninum með litlu systur og virtust alveg hafa gleymt honum.

Hugur varð leiður. Eftir að litla systir fæddist var stundum eins og pabbi og mamma gleymdu honum og voru bara með henni. Hann varð leiður og þreyttur og langaði ekki til að vera lengur úti í göngutúr. Hann settist niður.

Pabbi og mamma héldu bara áfram að ganga.

„Þeim er alveg sama um mig,“ hugsaði Hugur, „þeim þykir bara vænt um hana.“ Hann fann hvað hann varð leiður í hjartanu og um leið varð hann enn þreyttari.

Hugur horfði á pabba og mömmu og litlu systur ganga lengra og lengra. Allt í einu sá hann pabba sinn snúa sér við og svipast um eftir einhverju. Þegar pabbi sá hann sitja einan langt á eftir þeim stoppuðu þau öll. Pabbi kallaði til hans:

Hugur minn, komdu til okkar.“

Hugur svaraði engu, hann langaði ekkert til að tala við pabba sinn núna.

„Komdu nú, Hugur minn,“ sagði pabbi.

Ég er svo þreyttur, ég get ekki gengið meira,“ sagði Hugur og sat sem fastast. Hann varð yfirkominn af þreytu og leiða yfir því hvað pabbi og mamma og litla systir voru komin langt á undan honum.

„Komdu nú hingað, Hugur minn,“ kallaði pabbi til hans um leið og hann lagði af stað á móti honum. Pabbi gekk til hans með útréttan handlegginn og sneri lófanum í átt að Hug.

„Komdu, elsku kallinn minn,“ hélt hann áfram.

Hug létti um hjartað þegar pabbi kom í áttina til hans. Pabbi vildi alveg hafa hann með þeim, hann hafði ekkert gleymt honum. Hann sá pabba sinn nálgast og brátt var hann kominn til hans.

„Varstu svolítið leiður þegar við vorum komin svona langt á undan þér?“ spurði pabbi.

Hugur kinkaði kolli. Það var gott að pabbi skildi hann svona vel.

„Sjáðu, pabbi, þennan stein sem sjórinn kastaði hingað,“ sagði Hugur og var allur að koma til. Hann var ekki alveg eins þreyttur og áður. Hann sýndi pabba sínum einn steininn sem var á göngustígnum.

„Þessi er flottur,“ sagði pabbi og hélt um steininn.

„Eigum við að sýna mömmu og litlu systur steininn?“ spurði hann Hug.

Það fannst Hug góð hugmynd.

„Eigum að telja hvað við verðum fljótir til þeirra?“ spurði pabbi.

Þeir hlupu af stað. Hugur varð aðeins á undan pabba sem sagði „tuttugu og þrír“ um leið og hann náði mömmu og litlu systur.

„Mikið varstu fljótur að hlaupa,“ sagði pabbi, „þú hljópst bara miklu hraðar en ég.“

Hug leið vel að hafa verið á undan pabba og fann um leið að hann var ekkert þreyttur lengur.