Gönguferð – taka eitt

📖

Gönguferð – taka eitt

„Eigum við að koma út að ganga?“ spurði mamma Hugar,

„það er svo gott veður úti.“

Hugur sem var nýorðinn fimm ára varð mjög glaður þegar mamma hans spurði. Honum fannst svo gaman að fara í gönguferð með pabba og mömmu og litlu systur. Hann gat gengið alveg sjálfur en ekki systir hans, hún var svo lítil að pabbi og mamma óku henni í barnavagninum.

„Drífðu þig nú í fötin svo við komumst einhvern tímann af stað,“ sagði mamma hans og fór að klæða systur hans í útifötin. Það hafði margt breyst þegar systir hans fæddist. Áður hjálpaði mamma hans honum alltaf að klæða sig en núna þurfti hann að gera allt sjálfur.

„Ég veit ekki hvar úlpan mín er,“ sagði Hugur og langaði til að mamma hans kæmi og hjálpaði honum að minnsta kosti að finna úlpuna.

„Láttu ekki svona, Hugur, víst veistu það. Hún er þar sem hún er alltaf, reyndu bara að líta í kringum þig.“

Hugur gekk hægum skrefum að snaganum þar sem úlpan hans hékk. Hann tók hana og byrjaði að fara í hana, mjög hægt og klaufalega.

„Láttu ekki eins og smábarn, að sjá hvernig þú klæðir þig í. Maður veit eiginlega ekki hvort ykkar er litla barnið, þú eða systir þín.“

Þetta fannst Hug óþægilegt að heyra.

„Ætlarðu að hangsa yfir þessu í allan dag?“ sagði mamma hans hvöss. „Við verðum að koma okkur af stað, systir þín þarf að fara að sofa í vagninum.“

Mamma kippti Hug reiðilega til sín og klæddi hann í úlpuna og renndi upp.

„Svona, getur þú nú klárað sjálfur að fara í skóna eða þarf ég að gera þetta allt fyrir þig?“

Pabbi var að koma inn eftir að hafa undirbúið barnavagninn.

„Mikið varstu duglegur, Hugur minn, að klæða þig,“ sagði hann og tók utan um Hug.

„Ja, ef það hefði nú verið þannig,“ sagði mamma, „hann var bara að drolla yfir þessu. Ég skil hann ekki, eins og hann hefur gaman af að fara út að ganga. Hann er búinn að vera svona í allan dag, það er alveg sama hvað ég bið hann um, hann gerir ekkert af því.“

Hugur þoldi þetta ekki. Ef hann gerði eitthvað af sér og mamma varð pirruð gerði hún svo ótrúlega mikið úr því. Og svo klagaði hún í pabba og nú var pabbi orðinn fúll út í hann.

„Hugur,“ sagði pabbi og var pirraður í röddinni, „hvað eigum við eiginlega að gera við þig. Þú ert hættur að nenna að gera hluti sem þér fannst svo gaman að gera þegar þú varst yngri, þetta gengur ekki svona lengur.“

Hug leið illa, núna voru þau öll á móti honum. Þetta var alltaf svona. Þegar mamma var búin að klæða litlu systur og setja hana í vagninn lögðu þau af stað.

Þau voru vön að ganga meðfram sjónum og það gerðu þau aftur núna. Þegar þau höfðu farið nokkurn spöl gengu þau fram á mikið af sandi og steinum á göngustígnum og sumir þeirra voru mjög stórir.

„Af hverju er svona mikið af steinum hérna, mamma?“ spurði Hugur. Það höfðu aldrei verið steinar á stígnum í hin skiptin sem þau höfðu verið úti að ganga.

„Það hefur verið svo mikill kraftur í sjónum,“ sagði mamma hans, „þegar hann skvettist yfir grjótgarðinn þá hefur hann tekið steinana með sér. Öldurnar geta kastað svona stórum steinum langt, langt upp á land.“

Hugur skoðaði steinana. Skrýtið að vatnið í sjónum gæti verið svo kraftmikið að það kastaði steinum svona langt, hann gæti ekki einu sinni lyft mörgum þeirra.

Það var fullt af steinum sem fannst gaman að skoða. Hann tók einn þeirra upp til að sýna pabba og mömmu. Þá sá hann að þau voru komin langt á undan honum. Þau voru að tala saman, ýttu á undan sér barnavagninum með litlu systur og virtust alveg hafa gleymt honum.

Hugur varð leiður. Eftir að litla systir fæddist var stundum eins og pabbi og mamma gleymdu honum og voru bara með henni. Hann var leiður og þreyttur og langaði ekki til að vera lengur úti í göngutúr. Hann settist niður.

Pabbi og mamma héldu bara áfram að ganga.

„Þeim er alveg sama um mig,“ hugsaði Hugur, „þeim þykir bara vænt um hana.“

Hann fann hvað hann varð leiður í hjartanu og um leið varð hann miklu þreyttari.

Hugur horfði á pabba og mömmu og litlu systur ganga lengra og lengra. Allt í einu sá hann pabba sinn snúa sér við og svipast um eftir einhverju. Þegar pabbi sá hann sitja einan langt á eftir þeim stoppuðu þau öll. Pabbi kallaði til hans:

„Hugur minn, komdu til okkar.“

Hugur svaraði engu, hann langaði ekkert til að tala við pabba sinn og mömmu núna.

„Hugur, láttu ekki svona,“ kallaði pabbi, „ætlarðu að byrja á þessu eina ferðina enn? Það er búið að vera svo gaman hjá okkur og nú ert þú að eyðileggja alla ferðina. Drífðu þig nú.“

Hug fannst leiðinlegt þegar pabbi kenndi honum um allt. Það voru þau sem skildu hann eftir, þau hugsuðu bara um systur hans og var alveg sama um hann.

„Hugur, láttu ekki eins og kjáni, komdu nú,“ sagði mamma hvassri og pirraðri röddu. „Við verðum að halda áfram að ganga, annars getur verið að systir þín vakni.“

Hug var alveg sama, hún myndi þá bara vakna. Hvað með það? Hann sat áfram á göngustígnum en var farið að líða mjög illa.

„Hugur, ef þú kemur ekki eins og skot þá förum við. Ekki vilt þú vera einn eftir, þú ratar ekki heim.“

Hug var alveg sama, hann var orðinn reiður. Þau ætluðu að skilja hann eftir og fara öll þrjú saman, honum var sko alveg sama, sagði hann við sjálfan sig.

„Jæja, þá förum við bara, þú getur bara verið þarna einn,“ sagði pabbi.

„Bless,“ bætti hann við, „þú verður þá bara þarna.“ Og svo sneru þau í hann baki og héldu áfram að ganga með barnavagninn í burtu frá honum.

Hug leið ofsalega illa, hann var bæði reiður og hræddur. Ætluðu þau að skilja hann eftir? Hann fann hræðsluna taka yfirhöndina og hann var nærri því farinn að gráta. Hann var sem lamaður þegar hann sá þau allt í einu stoppa og snúa sér hálfvegis í átt að honum. Þau ætluðuð þá ekki að skilja hann eftir hugsaði hann, þau vildu að hann kæmi með.

„Bless, bleeesss ... við erum þá farin,“ kallaði pabbi. Þau sneru sér aftur frá honum og löbbuðu áfram. Hugur varð skelfingu lostinn, þau ætluðu að skilja hann eftir. Þeim var alveg sama um hann. Þau vildu bara eiga systur hans, hann hataði hana.

Hugur fór nú að hágráta. Hann stóð upp og hljóp á eftir pabba og mömmu. Hann vildi ekki vera skilinn eftir. Þegar þau heyrðu hann koma, stoppuðu þau og biðu eftir honum. Þegar Hugur var næstum alveg kominn til þeirra sagði mamma:

„Af hverju læturðu alltaf svona, Hugur minn? Af hverju geturðu ekki bara gert eins og við segjum þér? Hvers vegna þarf alltaf að vera svona mikið vesen á þér?“

Pabbi beygði sig niður þegar Hugur kom til þeirra og tók hann í fangið.

„Þið ætluðuð að skilja mig eftir,“ sagði Hugur grátandi og ásakandi, „ykkur er alveg sama um mig.“

„Auðvitað ætluðum við ekki að skilja þig eftir, þú veist það alveg,“ sagði pabbi. „Þú veist að pabbi og mamma myndu aldrei skilja Hug sinn eftir einan.“

Hugur heyrði alveg það sem pabbi hans sagði en hann trúði honum ekki. Þau höfðu sagt bless við hann og labbað í burtu frá honum með vagninn, þeim var alveg sama um hann.