Fyrirmyndir barnanna í umferðinni

📖

Fyrirmyndir barnanna í umferðinni

„Hvað má keyra hratt hérna?“ er spurning sem margir feður og mæður, afar og ömmur, frændur og frænkur og aðrir bílstjórar hafa heyrt úr aftursætinu.

Á ákveðnum aldri, oftast 6-9 ára, eru börn mjög upptekin af því að þau, foreldrar þeirra og aðrir geri „rétt“. Þau spyrja og spyrja um reglurnar og fá oftast að vita hverjar þær eru. Börnin vita að það má ekki aka og tala í símann á meðan, að það má aka að hámarki á 90 km hraða á þjóðvegum, að það má ekki leggja upp á gangstétt, að það á að fara yfir götur á gangbrautum og að það á að bíða eftir græna kallinum áður en farið er yfir götuna. Það á ekki að aka yfir gatnamót á appelsínugulu og það á að ...

Já, börnin spyrja og spyrja og hafa oft orð á því ef ekki er farið eftir reglunum.

Sumir fullorðnir fara í vörn ef þeir hafa brotið lög og reglur og reyna að réttlæta brotin:

„Það er svo lítil umferð.“

„Ég er að flýta mér.“

„Ég verð enga stund.“

„Það var enginn bíll að koma að gangbrautinni.“

„Ég ræð alveg við að tala í símann meðan ég er að keyra“ (lesist: Ég er svo vanur því) o.s.frv.

Með þessum hætti kennir fullorðið fólk börnum þá lexíu að það sé persónulegt mat hverju sinni hvort ástæða sé til að fara eftir reglum.

Ég tel afar óheppilegt að kenna börnum þá lexíu. Þau gætu lært hana!

Og þau geta þar með lært að það sé í lagi að þau drekki 14-16 ára gömul á 17. júní og Menningarnótt, að það sé ekkert athugavert við að fara á skemmtistaði sem eru bannaðir krökkum á þeirra aldri, að þau megi vera úti fram yfir löglegan útivistartíma, að þau ráði alveg við að vera í tölvuleik daga sem nætur þó þeim hafi verið settar reglur um annað, að þau geti alveg ekið heim af dansleik því þau hafi ekki drukkið „neitt svo mikið“.

Það gefur augaleið að þau læra ósjaldan að þau geti og megi meta aðstæður sjálf og þurfi ekki að fara eftir reglum – frekar en fyrirmyndirnar.

Hugaðu þess vegna vel að því hvernig þú tekur ábendingum barnsins í „aftursætinu“ eða við hliðina á þér við gangbrautina.

Í fyrsta lagi: Gættu þess að fylgja settum reglum. Ég er viss um að þú vilt að barnið læri það líka. Svaraðu ekki í síma meðan þú ekur, notaðu handfrjálsan búnað eða slepptu símtalinu (þú getur séð eftir á hver var að hringja), bíddu eftir græna kallinum, aktu á löglegum hraða, leggðu í lögleg stæði o.s.frv.

Í öðru lagi: Verði þér á og brjótir reglurnar „réttlættu“ þá ekki brotið eða gerðu lítið úr því, viðurkenndu heldur mistökin og leiðréttu þau. Hægðu á þér svo þú akir á löglegum hraða, snúðu við á gangbrautinni ef þú hefur lagt af stað á móti rauða kallinum, slepptu símanum í akstri og færðu þig á löglegt bílastæði þótt þú þurfir að ganga aðeins lengra.

Hafðu ávallt í huga að þú ert fyrirmynd barnsins þíns. Kenndu því þannig gildi þess og mikilvægi að fara eftir reglum og að það sé ekki háð persónulegu mati hverju sinni hvort það sé gert. Það er ekki ólíklegt að barnið telji sig á stundum geta metið hvort það fari eftir þínum reglum.

Það er svo nefnilega svo ósegjanlega satt að það læra börnin sem fyrir þeim er haft.