📖
Fyrirgefning
„Segðu fyrirgefðu og svo ræðum við þetta ekki frekar,“ sagði mamma Hugar eftir að hann hafði neitað að fara út með ruslið. Hún hafði orðið reið og farið að skammast og Hugur hafði svarað henni fullum hálsi.
Hugur dauðsá eftir að hafa hegðað sér svona, hann vildi ekki rífast við mömmu sína. Honum fannst hún bara svo oft vera pirruð og þá bitnaði það á honum.
Það hafði verið þannig í þetta skipti. Mamma hans hafði strax orðið pirruð þegar þau voru komin heim eftir að hún hafði sótt hann á skóladagheimilið. Það sást strax að systir hans hafði fengið sér að borða því hún hafði ekki gengið frá eftir sig. Hún hafði líka skilið föt og handklæði eftir á baðherbergisgólfinu og skólatöskuna á miðju forstofugólfinu og var farin eitthvað út. Mamma hans þoldi ekki svona umgengni og hafði oft rætt um hana og skammast út af henni við systur hans.
Núna þegar mamma hafði ekki systur hans til að rífast við út af þessu fór hún að skammast í Hug. Hún hafði skammað hann fyrir að hafa ekki gengið frá rúminu sínu í morgun, en oftast var henni þó sama, hún skammaði hann fyrir að hafa verið lengi að klæða sig og skammaði hann fyrir að gera ekkert á heimilinu og að allt lenti á henni.
Hugur var búinn að fá nóg og þegar mamma hans hafði í framhaldi af þessu öllu sagt höstuglega: „Og farðu svo einu sinni út með ruslið án þess að ég þurfi að segja þér allt hundrað sinnum,“ var hann orðinn svo pirraður og vansæll að hann neitaði. Það var heldur ekki rétt að mamma hans þyrfti að segja honum „hundrað sinnum“ að gera eitthvað. Hann var oftast mjög fljótur að gera það sem hann átti að gera þó það drægist stundum, en bara stundum.
Hugur vildi í raun og veru biðja mömmu sína afsökunar en það sem hún sagði – „svo ræðum við þetta ekki frekar“ – var ekki satt. Hún myndi segja pabba hans frá þessu þegar hann kæmi heim og hún sagði alltaf þannig frá að allt væri Hug að kenna. Pabbi hans myndi líka skamma hann fyrir að vera svona ókurteis við mömmu. Og amma myndi fá að vita af þessu, mamma sagði ömmu alltaf allt. Amma myndi auðvitað trúa öllu sem mamma sagði og tala um hve leið hún væri yfir því að Hugur væri svona óþekkur við mömmu sína sem gerði allt fyrir hann.
Þar með væri þetta ekki búið. Hugur vissi að næst þegar hann gerði mistök eða svaraði mömmu fullum hálsi (sem hann ætlaði þó að reyna að koma í veg fyrir) myndi hún muna eftir þessu atviki og rifja það upp. Setningar á borð við „og manstu þegar þú neitaðir líka að fara út með ruslið“ myndu heyrast frá mömmu hans þegar hún yrði aftur pirruð og reið. Mikið vildi Hugur að það gæti orðið eins og mamma hans lofaði, að hann bæðist fyrirgefningar og svo yrði þetta aldrei rætt frekar.
Lærdómur:
Fyrirgefning felur í sér sátt á milli aðila um það sem var gert rangt.
Hafðu hugfast að þegar barnið þitt hefur fengið fyrirgefningu frá þér máttu ekki nota það gegn því síðar.
Vertu ekki „sagnfræðingurinn“ í uppeldinu, en það er sá sem rifjar upp slæmu atvikin þegar það hentar
Mundu að í endursögn af rifrildi milli foreldris og barns hentar það foreldrinu best að segja aðeins frá því sem barnið sagði og gerði. Foreldrar g(l)eyma að segja frá
sínum hlut í atburðarásinni. Það er ekki sanngjarnt gagnvart barninu né þeim sem heyra söguna, því þeim hættir til að taka afstöðu á röngum forsendum.
Með því að fyrirgefa barninu þínu mistök þess í raun og veru og þar með að rifja þau aldrei upp þegar það hentar ekki barninu ertu að styrkja það og gefa því færi á að komast burt frá mistökunum.
Með því að vera sagnfræðingurinn sem rifjar upp leiðinleg atvik gerir þú barninu þínu erfiðara fyrir að „byrja upp á nýtt“ og eykur líkurnar á þrjósku og stífni. Það er líka til þess fallið að draga úr styrkingu á sjálfsmynd barns sem hugsar þá jafnvel á þessa leið: „Ég geri aldrei neitt rétt, ég er ömurleg(ur).“