Fatlað barn eða barn með fötlun ...

📖

Fatlað barn eða barn með fötlun ...

Árið 1979 birtist í fagtímariti hér á landi grein sem hét 15 ráð til foreldra fatlaðra barna. Þar sem ég hef alltaf verið áhugasamur um hagnýtingu sálfræðinnar og að veita foreldrum sem árangursríkasta aðstoð ákvað ég að lesa þessi ráð vandlega til að geta komið þeim á framfæri ef með þyrfti.

Efnislega voru ráðin þessi:

  1. Láttu sérfræðing skoða barnið reglulega, m.a. heyrn þess og sjón.

  2. Kenndu barninu að klæða sig sjálft, hnýta skóreimar, fara í yfirhöfn o.s.frv. – láttu það yfirhöfuð gera sjálft allt sem það mögulega

  3. Vísaðu barninu á vissan stað til að hengja upp fötin sín.

  4. Fáðu barninu tiltekin skyldustörf á heimilinu sem það er fært um að leysa af

  5. Kenndu barninu að segja nafn sitt, heimilisfang og símanúmer, sé það mögulegt.

  6. Hvettu barnið til að sýsla eitthvað út af fyrir

  7. Hrósaðu barninu fyrir það sem það getur gert en varastu að gera lítið úr því sem það getur ekki

  8. Forðastu að bera barnið saman við aðra, bæði til lofs og

  9. Kenndu barninu að ganga frá leikföngunum sínum.

  10. Kenndu barninu að fara yfir götu á

  11. Kenndu barninu á umferðarljós. Það má æfa bæði heima og úti á götu.

  12. Sýndu því áhuga sem gert er í skólanum, gangi barnið í skóla.

  13. Lestu upphátt fyrir barnið úr bókum, ef það getur fylgst með

  14. Hafðu ákveðna svefn- og hvíldartíma

  15. Hlustaðu með athygli þegar barnið vill koma einhverju á framfæri við þig.

Það þarf ekki að gaumgæfa þessi ráð ítarlega til að sjá að þau gilda öll fyrir öll börn, ekki sérstaklega fyrir fötluð börn.

Það veltur auðvitað á aldri og þroska barnanna hvenær ráðin eiga við, rétt eins og gildir um fötluð börn. Hér á einfaldlega við það sama og þegar fjallað er um börn yfirleitt (og fullorðið fólk). Afmörkuð og takmarkandi skilgreining er sett á undan orðinu barn, og það skilgreint sem fatlað barn, rétt eins og sérstök ráð gildi um uppeldi þeirra.

Þessi ráð segja okkur hins vegar að börn með fötlun eiga miklu meira sameiginlegt með öðrum börnum en þau eiga hvert með öðru. Þar með er ekki litið fram hjá því að fötluð börn eiga að sjálfsögðu við ákveðna erfiðleika að etja sem greina þau frá öðrum börnum. En höfum hugfast að fötlun barns er afmarkað sérkenni þess, fremur en einkenni þess.

Við gerum þetta ekki eingöngu þegar um fötlun er að ræða. Vissulega tölum við um blind og sjónskert börn, heyrnarlaus, svo dæmi séu tekin. En við tölum líka um óþekk börn, erfið börn, frek börn, feimin börn, ofvirk börn, sérkennileg börn o.s.frv.

Þessi tilhneiging okkar til að setja sérkenni barns fremst getur gert það að verkum að við bregðumst öðruvísi við því. Ég tel til dæmis að við bregðumst öðruvísi við gagnvart

„erfiðu barni“ en „barni sem á erfitt“. Við gerum okkar aðrar hugmyndir um vandræðaungling en ungling sem á í vandræðum. Við höfum aðrar væntingar til ofvirks barns en barns sem á erfitt með að stjórna hegðun sinni við tilteknar aðstæður. Og við lítum öðrum augum á „skapmikið barn“ en barn sem á erfitt með að taka því að vera bannað eitthvað.

Það er barninu í hag að við setjum hugsanleg sérkenni þess í annað sæti. Þannig gerum við okkur betur grein fyrir því að við stöndum alltaf frammi fyrir barni sem á miklu fleira sameiginlegt með öllum öðrum börnum en með þeim sem hafa verið „flokkuð“ sem frek, skapbráð, feimin, fötluð o.s.frv.