Farðu vel með það sem barnið treystir þér fyrir

📖

Farðu vel með það sem barnið treystir þér fyrir

Allir foreldrar barna sem eru komnir sæmilega til vits og ára skilja að barnið auðsýnir þeim að jafnaði trúnaðartraust og fyllstu einlægni. Það fer þó allt eftir tengslum foreldra við börnin sín.

Þetta traust og þessi einlægni á milli foreldra og barna er afar dýrmæt og slíkt ber að virða. Það er til dæmis ekki heppilegt að segja 14 ára barnapíunni að strákurinn sem hún er að passa hafi sagst vera skotinn í henni, hafi hann trúað foreldrum sínum fyrir því í einlægni. Gildir þá einu hversu

„sætt“ fullorðna fólkinu finnst það vera.

Sama gildir um þann trúnað og það traust sem mörg börn sýna foreldrum sínum eftir að hafa jafnað sig á reiðikasti. Þau segja þá ef til vill, full af eftirsjá, hvað þeim finnist leiðinlegt „að hafa látið svona“, það hafi verið rangt að gera eða segja tiltekna hluti. Og foreldrarnir taka afsökunarbeiðnina gilda og börnin lofa að gera þetta aldrei aftur.

Þeir foreldrar sem eignast slíkt traust verða að fara vel með það. Þeir mega ekki grípa til þess næst þegar barnið

„missir sig“ að rifja upp það sem barnið sagði í síðasta uppgjöri. Setningar á borð við þessar eiga ekki rétt á sér:

„Varst það ekki þú sem sagðir um daginn að þú vildir ekki láta svona?“

„Manstu þegar þú varst síðast svona reiður – þá sagðirðu að þú meintir ekkert með þessu?“

Varastu að (mis)nota það sem barnið segir þér í einlægni þegar það hentar þér, en ekki barninu. Það getur kennt barninu að hætta að vera einlægt og treysta þér, það verði kannski notað gegn því síðar meir.