Farðu-amma og komdu-amma

📖

Farðu-amma og komdu-amma

Hugur var ríkur, það sögðu pabbi hans og mamma oft. Fyrir utan systkini sín og pabba og mömmu átti hann tvær ömmur og tvo afa. Hann var líka ríkur af því að hann gat hitt þau svo oft og líka af því að hann fékk svo margar gjafir. Hann fékk til dæmis þrjú páskaegg um síðustu páska, eitt frá hvorum afa og ömmu og svo eitt frá pabba og mömmu.

Þegar pabbi og mamma fóru út að skemmta sér fannst Hug gaman að fá að gista hjá afa og ömmu. Stundum réðu foreldrar hans hvar hann átti að gista en stundum fékk hann að ráða því sjálfur.


Þegar hann mátti ráða sjálfur vildi hans helst alltaf gista hjá komdu-ömmu og afa. Það kallaði hann þau með sjálfum sér vegna þess að amma sagði oftast komdu þegar hann átti að gera eitthvað.

Hina ömmuna kallaði hann farðu-ömmu því hún sagði honum oftast að fara ef hann átti að gera eitthvað. Þegar hann var hjá henni sagði hún alltaf við hann: „Hugur minn, farðu nú inn í herbergi og finndu þér eitthvað að leika með.“

Eða:

„Jæja, farðu nú að hátta og svo þegar þú ert búinn að því skaltu fara og bursta tennurnar. Farðu svo upp í rúm og þegar ég er búin að lesa fyrir þig áttu að fara að sofa.“

Það var ótrúlegt hvað henni þótti vænt um þetta orð „farðu.“ Eins og það væri uppáhaldsorðið hennar. Hug fannst algjör óþarfi að nota það svona mikið. Hann þekkti nefnilega hitt orðið, það sem komdu-amma notaði.

Þegar hann var hjá komdu-ömmu og það var að koma háttatími sagði hún:

„Jæja, Hugur minn, komdu nú að hátta,“ og fylgdi honum inn í herbergið þar sem hann átti að sofa og sat og spjallaði við hann meðan hann háttaði sig.

Þegar hann var búinn að því sagði amma honum að koma og bursta tennurnar og þvo sér. Svo rétti hún honum höndina og sagði:

„Nú skulum við koma inn í herbergi og ég skal lesa fyrir þig.“

Auðvitað sagði amma líka stundum farðu, eins og til að mynda: „

Nú skaltu fara að sofa, Hugur minn,“ þegar hún var búin að lesa fyrir hann. En Hug fannst það hljóma öðruvísi þegar það var sagt svona sjaldan.

Þegar Hugur vaknaði daginn eftir og vakti ömmu sagði hún alltaf:

„Nú skulum við koma og fá okkur eitthvað að borða, svo skulum við gera eitthvað saman.“

Það þýddi alltaf að þau gerðu eitthvað saman, hann og amma. Stundum horfði hún á sjónvarpið með honum og stundum spiluðu þau á spil eða gerðu eitthvað annað sem þeim fannst báðum skemmtilegt. Hún sagði ekki:

„Farðu nú að leika þér“ eða „Farðu nú að horfa á barnatímann.“

Það þýddi að hann ætti að vera einn. Þá fannst Hug eins og hann væri fyrir og að amma vildi vera laus við hann.

Hugur ákvað með sjálfum sér að þegar hann eignaðist börn þá ætlaði hann að vera komdu-pabbi og seinna að verða komdu-afi. Það væri svo miklu skemmtilegra fyrir börnin.