Ekki trúa barninu þínu alltaf

📖

Ekki trúa barninu þínu alltaf

Börn reiðast, rétt eins og allir aðrir. Þegar fólk reiðist breytist hegðun þess. Stundum lokar það sig af og notar þögnina sem tjáningarform. Sumir nota svipbrigði til að tjá sig við þær kringumstæður, setja ef til vill í brýrnar, glotta, hnussa o.s.frv. Og það kemur oft fyrir fólk að segja eða gera eitthvað sem það myndi annars ekki gera reiðilaust.

Þetta gerist auðvitað líka hjá börnum þegar þau reiðast. Þess vegna skaltu varast að líta svo á að þegar barnið þitt er reitt segi það raunverulega skoðun sína eða tjái sig að vandlega íhuguðu máli.

Mundu að sennilega lætur barnið í reiði sinni falla orð sem er ætlað að særa þig og meiða. Þetta gera börn yfirleitt í vörn þegar þeim finnst þau órétti beitt.

Forðastu því eins og heitan eldinn að rökræða fullyrðingar og meiðandi ummæli barnsins þegar það er í reiðikasti. Ef þörf krefur er alltaf tími til að ræða slíkt seinna þegar barninu er runnin reiðin.