"Eftir allt sem ég hef gert fyrir þig..."

📖

"Eftir allt sem ég hef gert fyrir þig..."

Foreldrar gera óhemju margt fyrir börnin sín. Segja má að allt frá fæðingu séu þeir vakandi og sofandi yfir velferð barnanna og tilbúnir að gera allt sitt besta fyrir þau.

Foreldrar velja að kaupa handa þeim vöggu, barnavagn og gott rúm, greiða fyrir tannréttingar, fara með börnin í ferðalög innanlands sem utan, kaupa á þau föt og bjóða þeim í bíó. Þeir hvetja börnin sín til að sækja skemmtanir í skólanum, skutla þeim á æfingar og aka þeim jafnvel í skólann flesta daga.

Foreldrar gera í rauninni óendanlega margt fyrir börnin sín.

Yfirleitt gera foreldrarnir þetta allt að eigin frumkvæði vegna þess að þá langar að gleðja börnin sín og hugsa vel um þau. Þeir gefa þeim til dæmis uppáhaldsmatinn þeirra, ferðast með þau til útlanda, safna fyrir ferðinni eða taka hana jafnvel á Visa-raðgreiðslum.

Stundum eiga börnin hugmyndina að því sem gert er fyrir þau, til dæmis að fá að fara í bíó, kaupa nammi á nammidögum eða vera keyrð og sótt á æfingar. Og þau gera foreldrana ábyrga fyrir því að vakna á réttum tíma á morgnana og finnst eðlilegt að biðja um flott föt, þótt þau kunni að vera dýr.

Oft samþykkja foreldrar óskir barnanna umsvifalaust, finnist þeim þær sanngjarnar. Stundum suða þau hins vegar lengi áður en foreldrarnir láta undan.

Það er mikilvægt að foreldrar taki ábyrgð á frumkvæði sínu að því sem þeir gera fyrir börnin sín, bæði þegar þeir hafa sagt já við því sem þau báðu um eða að lokum samþykkt það sem þau hafa suðað um. Foreldrar verða að gera sér grein fyrir að það er ákvörðun þeirra sjálfra að nota tíma, orku eða fjármuni til að gleðja barnið sitt eða verða við óskum þess, hver sem átti frumkvæðið.

Þess vegna er það ósanngjarnt þegar barnið þitt gegnir þér ekki með eitt eða annað að gefa í skyn að það skuldi þér eitthvað í stað þess sem þú samþykktir að gera fyrir það. Það er ósanngjarnt að beita því gegn barninu – þegar það hafnar ef til vill einhverju sem þú biður um – að þú hafir nú veitt því sitt af hverju og sinnt því af örlæti og umhyggju og láta sem svo að það sé í skuld við þig.

Setningar á borð við:

„Er þetta þá þakklætið fyrir allt það sem ég hef gert fyrir þig?“ eiga ekki heima í fjölskyldum. Þar á ekki við að halda lista yfir debet/kredit. Börn skulda ekki foreldrum sínum eitt eða fleiri „já“ fyrir öll þau „já“ sem þau hafa fengið frá þeim. Foreldrarnir ákváðu sjálfir hverju sinni að segja „já“ og verða að taka ábyrgð á því.

Það eru til aðrar og betri leiðir til að hvetja börn til að segja „já“ við fyrirmælum, tilmælum og óskum foreldra sinna, leiðir sem byggja ekki á því viðhorfi að börnin skuldi foreldrunum fyrir allt það sem þeir ákváðu sjálfir að gera fyrir þau.

Dæmi um „skuldauppgjör“ vegna uppeldis