Dyragættaruppeldi

📖

Dyragættaruppeldi

„Þetta var alveg eins og þú hefur svo oft bent okkur á,“ sagði starfsmaður í unglingamiðstöð einu sinni við mig. Ég var ráðgjafi þar og annaðist meðal annars handleiðslu fyrir starfsfólk. Tilefni þessara orða var að hún hafði verið að stússa í eldhúsinu og nokkrir unglingar höfðu verið að fíflast með látum í sófanum inni í stofu. Þegar hún kom í dyragættina í þriðja skiptið til að hasta á þá sagði hún:

„Hættið þessum látum, krakkar, það getur eitthvað skemmst.“

Þá sagði einn unglingurinn við hana:

„Veistu það, Sigga, það er ekkert gagn að því að þú komir og bannir okkur að leika okkur í sófanum vegna þess að við byrjum strax aftur þegar þú ert farin.“

„Auðvitað hefði ég átt að bregðast öðruvísi við,“ sagði hún við mig. „Ég hefði getað stungið upp á einhverju sem mér fannst heppilegra að þau gerðu, t.d. að fara að spila, og ég gat líka geymt tiltektina í eldhúsinu rétt á meðan ég kæmi þeim af stað í verkefni eða æskilegan leik. Það sem ég gerði var engin „hjálp“ fyrir þau heldur vonlaus afskipti af minni hálfu. Og ég féll í þá gryfju að pirrast út í þau fyrir að gegna mér ekki.“

Þetta er það sem ég kalla „dyragættaruppeldi“, hvort sem um raunverulega dyragætt er að ræða eða ekki. Það felst í því að foreldrar standa utan við aðstæðurnar, t.d. í dyragættinni, og hasta á börnin sín þegar þeir vilja fá fram aðra hegðun. Það getur verið þegar systkini eru að ólátast inni í herbergi (eða stofunni eða ...), það getur verið þegar þau leika sér á fyrirferðarmikinn hátt með vinum sínum, spila kannski háværa tónlist í herberginu sínu eða taka á einhvern hátt ekki nægilegt tillit til annarra í kringum sig. Þetta geta verið læti utan úr garði þar sem hópur krakka er á trampólíninu eða í fótbolta. Þetta getur verið í leikskólanum, inni í skólabekk, á göngunum eða á skólalóðinni. Þetta getur verið ... hvar sem er.

Dyragættaruppeldi er ástundað hvarvetna og því er fyrst og fremst ætlað að fá börnin til að róast eða gera eitthvað annað. En það er mín einlæga skoðun, byggð á áratuga reynslu, að viðbrögð af þessu tagi séu öllum öðrum ólíklegri til að ná tilætluðum árangri. Þau kalla miklu fremur á að foreldrar, starfsfólk skóla og leikskóla og annað fullorðið fólk styrkist í þeirri trú að börn nú til dags séu miklu óþægari en börn voru áður fyrr. Þá (segja menn) gegndu börn fullorðnu fólki og báru virðingu fyrir því (eða hvað?).

Ég held að vísu að dyragættaruppeldi hafi aldrei virkað á börn, hvað sem annað má segja um hegðun barna nú til dags. Aðalatriðið í mínum huga er þó þetta:

  • Gættu vel að því hvernig þú berð þig að þegar þú reynir að hafa áhrif til breytinga á hegðun barnsins þíns eða nemanda sem þér er treyst

  • Varastu að dæma barnið eða börnin ef aðferðin sem þú beitir virkar illa. Hugaðu að öðrum leiðum sem gætu virkað betur og komið börnunum að meira gagni. Þær gætu falist í því að koma þeim af stað í einhvern annan leik, verða þátttakandi með þeim í leiknum um stund til að hafa áhrif á hann eða ...

  • Veldu leiðir sem fela í sér virðingu fyrir börnunum, þroska þeirra og

  • Treystu því ávallt að börnin vilji taka tillit en þurfi ef til vill aðstoð til þess.