Dæmdu ekki barnið

📖

Dæmdu ekki barnið

Mér hefur oft fundist foreldrar og aðrir gera mikil mistök þegar þeir tala um að barn sé óþekkt, erfitt, neikvætt, þvert, frekt, stíft o.s.frv. Með því hættir þeim til að líta á barnið almennt sem erfitt/frekt/óþekkt ..., en gleyma því að þetta sama barn er oft jákvætt og samvinnuþýtt, meðfærilegt, glatt og ánægt. Þess vegna skiptir það sköpum að líta á tiltekna hegðun barnsins sem erfiða, í stað þess að dæma barnið í heild sinni sem erfitt, frekt o.s.frv.

Þegar hegðun barns er lýst þá kemur dómur af þessu tagi að litlu gagni við að styðja það til að hegða sér betur. Dómurinn er fyrst og fremst mat þess sem lýsir barninu og er oftar en ekki settur fram til að reyna að hafa áhrif á þann sem rætt er við. Með því að lýsa barni með neikvæðum hætti á sá sem hlustar ekki annarra kosta völ en að samþykkja það sem sagt er, nema hann þekki barnið þeim mun betur.

Að mínu mati er framsetningu í þessum dúr oftast ætlað að skapa hluttekningu eða samúð með þeim sem lýsir barninu og jafnvel laða fram neikvæða afstöðu gagnvart

„óæskilegum“ sérkennum í fari þess. Hlustandanum er ætlað að sýna samkennd með þeim sem kvartar og taka afstöðu á einn eða annan hátt. Í besta falli að vera hlutlaus.

Það skiptir öllu hvernig orðin eru valin þegar verið er að lýsa barni.

Lærdómur:

Þegar þú lýsir erfiðleikum í fari barns skaltu leggja áherslu á þá hegðun sem er erfið.

  • Það er munur á því að tala um ungling í vandræðum eða vandræðaungling.

  • Það er munur á því að takast á við barn sem á erfitt með að sætta sig við að fá stundum ekki það sem það vill fá eða að glíma við frekt

  • Það er munur á því að umgangast barn sem er kvíðið og á erfitt með að takast á við nýjar aðstæður eða eiga við neikvætt

  • Það er munur á því að tala um barn sem finnst erfitt að skipta um skoðun eða breyta afstöðu sinni eða stíft og þvert

  • Það er munur á því að ræða um barn sem á verulega erfitt með að fara eftir fyrirmælum og kröfum um góða hegðun (vegna líffræðilegra erfiðleika) eða ofvirkt

  • Lýstu hegðun barns þannig að það sé barninu í hag og að hlustandinn skilji erfiðleika þess.

  • Lýstu hegðun barnsins það nákvæmlega að auðvelt sé að sjá fyrir sér hvernig aðstoða megi það til að hegða sér betur.