Bréf frá skólanum

📖

Bréf frá skólanum

„Úff, hvað ég er þreyttur og það er bara miðvikudagur,“ hugsaði Hugur þegar hann heyrði í vekjaraklukkunni og fannst eins og hann hefði rétt verið að sofna. Hann leyfði klukkunni að hringja smástund og slökkti svo á henni.

Hugur fann að hann var hálfslappur. Honum var illt í höfðinu og sennilega væri best fyrir hann að sofa aðeins lengur og sjá til hvort það lagaðist ekki. Hann var ekki fyrr búinn að ákveða þetta þegar hann heyrði mömmu sína koma inn í herbergið.

„Vaknaðu, Hugur minn,“ sagði hún og ýtti rólega við honum. Hann breiddi sængina yfir höfuðið og vildi sem minnst af henni vita, vildi sofa aðeins lengur. En mamma hans gafst ekki upp, hún kom aftur og aftur inn og vakti hann. Á endanum sá hann að þetta gengi ekki, settist upp í rúminu og byrjaði að klæða sig, en með semingi þó.

„Þú verður að fara fyrr að sofa,“ kallaði mamma til hans úr eldhúsinu, „það gengur ekki að vera svona mikið í tölvunni eða horfa á sjónvarpið langt fram á nótt.“

Hugur fór strax í vörn. Af hverju fór mamma hans alltaf að tala um tölvuna eða sjónvarpið ef hann dreif sig ekki á lappir? Hún kenndi alltaf tölvunni um allt.

„Ég var ekkert lengi í tölvunni í gærkvöldi,“ sagði hann, þótt hann vissi ekki alveg hvenær hann hafði farið að sofa. Hann hafði verið að tala við krakkana í skólanum í einhvern tíma eftir að hann var háttaður og eftir það hafði hann svo horft á mynd sem hann sofnaði út frá. Þetta var ekkert öðruvísi en vanalega, en mamma hans kenndi alltaf tölvunni um ef hann var slappur eða þreyttur. Það var ekki þannig, hann gat bara ekki farið að sofa eins snemma og mamma hans vildi.

Í skólanum var allt eins og vanalega. Flest fannst Hug leiðinlegt, sérstaklega valtímar í tölvu. Þeir voru allt öðruvísi en hann hélt þegar hann valdi þá í fyrra, hundleiðinlegir. Það eina sem honum fannst skemmtilegt í skólanum var enska og heimilisfræði, en hvorugt hafði verið í dag.

Þegar bjallan hringdi flýtti Hugur sér að pakka saman. Hann ætlaði að drífa sig heim, mamma hans kæmi seinna heim í dag en vanalega því það var miðvikudagur og þá fór hún alltaf í líkamsrækt eftir vinnu. Hann gæti því verið í tölvunni lengur í dag án þess að hún gerði mál úr því.

Á leiðinni út úr skólanum kom Ágúst og spurði hvort þeir ættu að gera eitthvað saman. Hugur nennti ekki að fara í fótbolta, það vildi Ágúst alltaf, en Hug fannst það ekkert skemmtilegt lengur. Þeir höfðu verið miklir vinir og alltaf í fótbolta í fyrra, alveg þangað til Hugur slasaðist þegar hann var að klifra og datt illa á grindverk. Það rifnaði út úr lærvöðvanum og þurfti að sauma nokkur spor. Læknirinn hafði bannað Hug að reyna mikið á vöðvann til að byrja með og því hafði hann ekki getað verið í fótbolta eins og hann var vanur. Hann var stöðugt minna með vinunum, datt að lokum að mestu út úr hópnum og fór að hanga meira inni. Þá var tölvan góður félagsskapur.

Mamma hans vildi gera eitthvað fyrir hann eftir óhappið þegar hann gat ekki verið í fótbolta og keypti áskrift að tölvuleik á Netinu. Það fannst Hug skemmtileg afþreying og hann vandist einhvern veginn á að vera í tölvunni frekar en að vera með vinunum, jafnvel þótt sárið á lærinu væri gróið og hann mætti alveg fara að reyna á það.

Þennan miðvikudag gat hann verið í tölvunni í fjóra tíma áður en mamma hans kæmi heim. Hann gætti þess að vera ekki í henni þá stundina sem mamma hans kom inn um dyrnar til að sleppa við sömu endalausu tugguna um að „hann væri alltaf í tölvunni“. Hann heilsaði mömmu sinni þegar hún kom inn, en svo reyndi hann að losna sem fyrst, jafnvel þótt hann fyndi að mamma hans vildi tala um eitthvað við hann.

„Jæja, Hugur minn, ertu búinn að læra?“ spurði mamma. Alltaf sama spurningin hjá mömmu.

„Það er ekkert að læra fyrir morgundaginn,“ svaraði Hugur strax þó hann vissi að það væri verkefni í íslensku fyrir morgundaginn og svo átti hann alltaf að reikna nokkur dæmi í stærðfræði alla daga vikunnar. En hann nennti ekki að gera það núna og vildi komast sem fyrst inn í herbergið sitt. Mamma hans gerði hvort sem er ekkert annað en að spyrja og þótt hún drægi stundum í efa að það væri ekkert að læra eða að hann væri búinn að því eða hefði gert það í skólanum og hún tryði því ekki, þá gerði hún ekkert í því nema að tuða og segja:

„Það er skrýtið að þú eigir aldrei að læra neitt, ég veit ekki betur en aðrir krakkar í áttunda bekk þurfi að læra heima flesta daga.“

Hugur lét yfirleitt sem hann heyrði þetta ekki eða reyndi að eyða því með einhverjum ráðum. Hann var orðinn góður í því. En í dag sleppti mamma hans honum ekki. Hún vildi ræða við hann því hún hafði fengið bréf frá kennara hans um að hann stæði sig ekki sem skyldi. Hann skilaði ekki verkefnum, sagði í bréfinu, hann mætti illa og ekki hefði orðið vart við heimanám í nokkrar vikur. Þetta var ástæðan fyrir því að hún vildi ræða við hann.

„Helv... kennarinn,“ hugsaði Hugur, „af hverju var hann alltaf að gera svona mikið mál úr öllu?“ Hugur var búinn að segja honum að hann ætlaði að taka sig á og hafði oft lofað honum að laga þetta.

„Komdu og sestu hérna hjá mér,“ sagði mamma hans og benti á sætið við hliðina á sér.

„Seinna, ekki núna,“ sagði Hugur, „ég þarf að klára svolítið fyrst.“

Þetta hafði oft dugað til að fresta leiðinlegum samtölum og varð oftast til þess að mamma hans gleymdi að ræða málið aftur.

„Við verðum að geta talað saman um þetta núna,“ sagði hún, „þó ég sjái alveg á þér að þig langar ekki til þess.“

„Hvað?“ sagði Hugur og reyndi að láta þreytu, pirring og áhugaleysi skína út úr röddinni. Það var alveg greinilegt að mamma hans ætlaði sér að ræða við hann. Hann kveið því, en var um leið á einhvern hátt líka létt. Hann hafði vitað að það kæmi að þessu, kennarinn hafði verið búinn að segja honum að hann myndi hafa samband við mömmu hans ef þetta lagaðist ekki. Hugur hafði alltaf ætlað að taka sig á, enda vildi hann líka standa sig betur í skólanum. Það var bara svo erfitt að breyta þessu. Þar að auki heyrði hann að mamma hans ætlaði ekki að skamma hann eina ferðina enn, hún var virkilega leið yfir bréfinu frá kennaranum og því hvernig hann hafði verið í skólanum.

„Ég hef miklar áhyggjur af náminu hjá þér, Hugur minn, og ég átta mig á að þú ert kominn í eitthvert far sem þú ræður ekki við,“ sagði mamma.

„Víst ræð ég við það,“ sagði Hugur, „kennarinn gerir bara alltof mikið úr þessu, hann leggur mig hreinlega í einelti.“ Kannski tækist honum að sleppa aðeins lengur með því að fá mömmu sína til að ræða um kennarann því hann vissi að hún var ekki alveg sátt við hann. En það tókst ekki í þetta skipti.

„Þú ert ekki sáttur við að kennarinn þinn hafi látið mig vita af stöðunni hjá þér,“ sagði mamma hans, „en burtséð frá því þá er ég fegin að hann sendi mér þetta bréf. Ég er mjög áhyggjufull yfir því að þú ert nánast hættur að læra heima og að þú ferð of seint að sofa vegna þess að þú ert of mikið í tölvunni.“

„Það er ekkert það,“ var Hugur fljótur að svara, enn í von um að sleppa. „Það er bara að okkur er sett svo mikið fyrir að ég næ ekki að gera það allt. Þegar ég svo bið um aðstoð þá vilja kennararnir ekki aðstoða mig.“

En mamma hans féll ekki í þessa gryfju núna eins og oftast áður. Hún hafði meira að segja einu sinni farið á fund upp í skóla til að krefjast þess að Hugur fengi meiri aðstoð í tímum.

„Ég veit, Hugur minn, að þó eitthvað mætti betur fara í skólanum þá leggur þú þig ekki fram eins og ætlast er til af þér. Þú ert of mikið í tölvunni, bæði á daginn og eins á kvöldin þegar þú átt að fara að sofa. Ég veit að ég hef oft verið pirruð og sagst ætla að taka tölvuna af þér en ekki gert neitt í því.“

Hugur gerði enn eina tilraunina til að dreifa umræðunni:

„Ég er ekkert mikið í tölvunni, það eru aðrir miklu lengur í tölvunni en ég,“ sagði hann með blöndu af afsökun og vandlætingu í garð þeirra sem eru alltof mikið í tölvunni.

En mamma hans hélt bara áfram:

„Það er gott að heyra að þér finnst hægt að vera of mikið í tölvunni og við erum sammála um það. Það sem við erum hins vegar að ræða núna er þín tölvunotkun og hvað hún tekur mikið frá svefninum og heimanáminu, svo eitthvað sé nefnt.“

Nú fann Hugur að mamma hans ætlaði sér að klára að ræða um tölvunotkunina. Hann varð dálítið hræddur innra með sér. Mamma hafði jú margsinnis hótað að taka af honum tölvuna ef hann drægi ekki úr notkuninni og hann hafði jafnoft lofað að minnka hana. Hann gæti reynt einu sinni enn að lofa.

„Já, ég veit, ég veit. Ég skal taka mig á í skólanum og vera minna í tölvunni,“ sagði hann í uppgjafar- og sáttartóni og sýndi á sér fararsnið eins og hann teldi að nú væri niðurstaða fengin og málið útrætt. En í dag ætlaði mamma hans að ræða þetta enn frekar. Þetta bréf frá kennaranum hafði greinilega ýtt við henni.

„Nú vil ég, Hugur minn,“ sagði mamma, „að við klárum að ræða þetta. Það er alveg skýrt í mínum huga að þetta verður að breytast. Þú ræður illa við að stjórna því sjálfur að hafa tölvuna inni í herberginu þínu og þú getur alls ekki stjórnað hvað þú notar mikinn tíma í henni. Þú þarft líka að bæta svefninn þinn og stunda námið betur. Er þetta ljóst?“ sagði mamma ákveðin en um leið full af umhyggju.

Hugur átti erfitt með að mótmæla henni því í raun fannst honum að þetta væri alveg rétt hjá mömmu. Ef hann ætlaði sér að komast í Versló eftir tíunda bekk yrði hann að taka sig á. Hann játti því sem mamma hans sagði og ákvað að vera tilbúinn að ræða málin við hana bara ef hún ætlaði sér ekki að taka tölvuna alfarið af honum.

„Jæja, Hugur minn, hvernig sérð þú fyrir þér að þetta geti orðið með tölvuna? Það er erfitt fyrir þig að stjórna notkuninni þegar hún er alltaf til staðar inni í herberginu þínu, auk þess sem það er mikilvægt fyrir mig að geta fylgst með því sem þú ert að gera í tölvunni.“

Hugur hugsaði sig aðeins um en datt ekkert í hug. Hann átti líka von á að mamma hans ætlaði að ráða þessu eins og hún var vön að gera.

„Mig langar til að heyra einhverjar tillögur frá þér, Hugur minn, til að laga þetta án þess að tölvan þurfi að fara. En eins og ég sagði þá gengur það ekki lengur að hafa óbreytt ástand. Bréfið frá kennaranum um ástundunina sýnir það og sannar. Hvernig eigum við að hafa þetta?“ spurði mamma.

Hugur hugsaði sig um.

„Hvað með að hafa ákveðinn tíma þar sem ég má vera í tölvunni, kannski á kvöldin?“ sagði hann vongóður, „og svo get ég verið með hana frammi í sjónvarpsherbergi svo þú getir fylgst með.“

Hann sá á svip mömmu sinnar að henni leist ekki illa á hugmyndina. Ef þetta gengi eftir gæti hann samt spjallað við vini sína og farið í tölvuleiki en kannski ekki langt fram á kvöld.

„Mér líst vel á þetta,“ sagði hún, „en ég vil að við setjum einhver tímamörk á notkunina til að lenda ekki í rifrildi seinna þegar þú átt að hætta. Ég legg til að þú getir verið í tölvunni í sjónvarpsherberginu frá klukkan sjö, þegar við erum búin að borða og ganga frá, til klukkan níu. Ég held að það sé alveg nægur tími fyrir þig, tvær klukkustundir á dag.“

Hugur hugsaði strax að þetta væri ekki sanngjarnt. Þetta var ekki góður tími. Flestir krakkarnir kæmu seinna á Facebook en þetta og hann gæti ekki talað við þá af því hann ætti að hætta svona snemma.

„Hvað með að vera frá klukkan átta til tíu, má ég það?“ sagði hann spyrjandi. Honum létti mikið þegar hann sá að mamma hans kinkaði kolli og samþykkti það.

„Fínt, þú ert þá frá átta til tíu á kvöldin í tölvunni og þú verður að passa þetta sjálfur. Ég vil ekki vera sú sem á að segja þér að hætta.“

„Fínt ég lofa því, en mamma, ertu samt til í að segja mér þegar klukkuna vantar tíu mínútur í tíu svo ég geti kvatt krakkana?“

Mamma hans var alveg til í það, sagði hún.

Hug var mjög létt. Honum fannst í raun mjög gott að vera búinn að ná samkomulagi um að geta verið í tölvunni og að þurfa ekki að vera alltaf að fela það fyrir mömmu og jafnvel skrökva til um hvað hann væri mikið í henni. Hann fann líka að hann yrði að standa sig betur í skólanum og ætlaði sér að vera duglegri að læra.

Í framhaldi af samtali þeirra spurði mamma hans hvað hann gæti þá gert á daginn til að leiðast ekki, sérstaklega á miðvikudögum þegar hún kæmi seinna heim. Honum kom þá í hug að hann gæti kannski farið í fótbolta með Ágústi og krökkunum svo hann hefði eitthvað að gera.

„Við skulum svo hafa það þannig, Hugur minn, að við setjumst hér saman aftur eftir viku og förum yfir hvernig hefur gengið með tölvunotkunina og að hætta sjálfur á kvöldin klukkan tíu. Við skulum þá líka skoða saman það sem þú hefur verið að gera í skólanum,“ sagði mamma hans.„Ef allt hefur gengið vel í vikunni þá skulum við gera eitthvað skemmtilegt saman, kannski getum við farið í sund eða bakað eitthvað gott fyrir okkur öll,“ stakk mamma hans upp á.

Þetta fannst Hug góð hugmynd, þau gætu kannski bakað pizzu eða snúða sem honum þótti mjög skemmtilegt.