Börn eiga ekki að hjálpa til við heimilisverkin (en lestu áfram...)

📖

Börn eiga ekki að hjálpa til við heimilisverkin (en lestu áfram...)

Ég er þeirrar skoðunar að börn eigi ekki að hjálpa til við heimilisverkin ... heldur eigi þau að taka þátt í heimilisverkunum.

Ég geri ráð fyrir að nær allir foreldrar séu mér sammála um að eðlilegt sé að börn taki þátt í heimilisverkum eftir því sem þau hafa aldur og þroska til. Verkin snúast ekki eingöngu um að taka til í eigin herbergi heldur einnig um önnur sameiginleg verkefni, svo sem almenna tiltekt, þrif, að setja í og taka úr uppþvottavélinni, fara út í búð o.s.frv.

Í þessu samhengi hef ég oft velt fyrir mér mikilvægi þess að orð og hugsun fari saman. Ef foreldrar telja það eðlilegan hluta af ábyrgð og uppeldi að börn taki þátt í heimilisverkum þá eiga þeir að orða það þannig. Of oft segja foreldrar setningar á borð við:

„Viltu fara út í búð fyrir mig og kaupa mjólk út á morgunkornið og eitthvað sem þú getur haft í nesti í skólann á morgun?“ (Lesist: Fyrir þig).

„Vertu svo búinn að taka úr vélinni fyrir mig áður en ég kem heim.“

„Leggðu nú á borðið fyrir mig meðan ég klára að elda“ (þegar allir eru að fara að borða matinn sem verið er að elda).

Foreldrar sem líta á þessi verkefni sem sameiginleg (líkt og mörg önnur verkefni á heimilinu) eiga að orða það á þann hátt:

„Þú þarft að fara út í búð og kaupa ...“

„Ég vil að þú sért búinn að taka úr vélinni áður en ...“

„Þú leggur svo á borðið meðan ég klára að elda ...“ o.s.frv.

Oft biðja foreldrar um „hjálp“ en pirr ast þegar börnin taka dræmt í það og segja á móti: „Þetta eru ekki bara mín verkefni, við berum öll ábyrgð á þessu.“

Eða: „Ég er ekki þrællinn á heimilinu.“

Og: „Þetta eru sameiginleg verkefni, ekki bara mín.“

Slík orð falla oft í hita leiksins. Ef þú vilt að börnin þín alist upp við að líta á heimilisverkin sem sameiginleg verkefni verður þú að orða hugsun þína í samræmi við það – þannig að þau taki þátt í heimilisverkunum en séu ekki að hjálpa þér.

Hugsaðu gaumgæfilega hvernig þú kemst að orði um þátttöku barnanna þinna í heimilisverkunum. Hafðu að leiðarljósi að setningarnar feli í sér að þér finnist eðlilegt að þau taki þátt í verkefnunum en séu ekki að hjálpa þér.