Barnið þitt á ekki að kvíða því að þú komir heim né að svara símtali frá þér

📖

Barnið þitt á ekki að kvíða því að þú komir heim né að svara símtali frá þér

Í gegnum tíðina hef ég oft heyrt börn og unglinga segja að þau kvíði því stundum að koma heim eða hringja, sérstaklega þegar þau hafa gert eitthvað af sér. Ég hef líka oft heyrt frá börnum að þau kvíði því að foreldrar þeirra komi úr vinnunni því þau séu áhyggjufull yfir að hafa ekki efnt eitthvað sem þau höfðu lofað. Stundum er það eitthvað sem foreldrunum finnst að börnin ættu að sjá sjálf að þurfti að gera á heimilinu. Ósjaldan á þetta við á sumrin þegar börnin eru í fríi en foreldrarnir í vinnu.

Margir krakkar leysa þennan vanda með því að vera ekki heima þegar foreldrarnir koma heim því þau kvíða „skömmunum“.

Í öðrum tilvikum kann svo að vera að börnin hafi ekki látið vita af sér, látið vita að þeim seinkaði eða hringt á tilsettum tíma. Margir draga það að koma heim eða hringja til að fresta skömmunum sem þeir vænta þegar þeir loksins koma eða hringja. Sum börn þurfa að manna sig upp í að hafa samband við foreldra sína sem aftur á móti þrá ekkert heitara en að heyra frá barninu sínu.

Stundum hefur þetta alvarlegar afleiðingar, meðal annars með því að börnin reyna að hafa sem minnst samband eða láta sem sjaldnast vita af sér til að sleppa við „tuðið“ eða skammirnar. Það getur undið upp á sig eins og snjóbolti þannig að börnin fresta lengur en ella að hafa samband sem gerir ástandið enn verra. Þetta kann að verða til þess að foreldrarnir skammast æ meir sem aftur eykur líkurnar á að barnið dragi það stöðugt lengur að koma eða hringja. Þá myndast vítahringur óheppilegra samskipta.

Hafðu það því fyrir reglu að skapa þannig andrúmsloft að allir geti hlakkað til að koma heim til sín, líka þegar þeir hafa gert eitthvað af sér. Taktu alltaf vel á móti börnunum þínum, sérstaklega þegar þau hafa gert eitthvað af sér. Finnist þeim gott að koma eða hringja heim aukast líkurnar á að þau hafi eins gott og mikið samband og þeim er unnt á hverjum tíma. Treystu því. Bæði þeirra vegna og þín vegna.

Þetta þýðir ekki að þú eigir að líta fram hjá því að börnin komi of seint eða hringi ekki eins og þau höfðu lofað. Auðvitað átt þú að nefna það við þau. Hafðu þó hugfast að best er að nota ákveðni, festu og skýr skilaboð. Varastu að viðhafa of mörg orð, þá hættir innihaldinu til að týnast í orðagjálfri.

Hafðu í huga að miklu betra er að þetta sé fimmta eða sjötta setningin sem þú segir þegar barnið loksins kemur eða hringir heldur en fyrsta setningin sem mætir því þegar það kemur inn úr dyrunum eða þú svarar símanum.

Það er miklu áhrifaríkara að segja við barnið eftir smá spjall um daginn og veginn:

„Ég er vonsvikinn yfir því að þú komst ekki heim eins og þú varst búin að lofa,“ eða: „Þú varst ekki búinn að taka úr uppþvottavélinni eins og þú lofaðir, það kom sér verulega illa fyrir mig,“ heldur en að segja:

„Hvað varstu eiginlega að hugsa? Geturðu aldrei staðið við neitt sem þú lofar? Ég veit ekki hvar þetta endar, þú ert í fríi allan daginn og ég í vinnunni og svo ætlast þú til að þetta lendi allt á mér.“

Það á enginn nokkurn tímann að þurfa að kvíða því að koma heim til sín, að einhver komi heim eða að svara símtali frá öðrum í fjölskyldunni.

Aldrei!