Aðstoð við heimanám

📖

Aðstoð við heimanám

Börn í grunnskólum þurfa oft að stunda heimanám og leysa fyrir tiltekinn tíma verkefni sem kennarar setja þeim fyrir. Mörg börn gera það samviskusamlega, jafnvel áður en þau fara úr skólanum, og sum ljúka verkinu strax og þau koma heim. Enn önnur börn ljúka við verkefnin af eigin rammleik síðar um daginn eða sama kvöld, en nokkur hópur barna þarf mikið aðhald og eftirgangssemi af hálfu foreldra sinna til að ljúka heimanáminu. Örfá læra alls ekki heima.

Burtséð frá síðasta hópnum þurfa börn iðulega aðstoð við heimanámið. Mörgum foreldrum reynist það vandaverk. Stundum þurfa þeir að leiðbeina um námsefni sem þeir hafa ef til vill lítinn skilning eða ekki næga þekkingu á. Það reynir oft mjög á og getur endað með ósköpum. Barnið pirrast við að þurfa aðstoð, foreldrarnir pirrast á neikvæðni barnsins og þeim finnst það ekki einbeita sér, börnin pirrast ennmeir á pirringi foreldranna og flóknum útskýringum þeirra sem eru jafnvel frábrugðnar skýringum kennarans, foreldrarnir pirrast á því að barnið pirrist þegar verið er að veita því aðstoð sem það bað um, barnið pirrast svo enn meir þangað til allt er komið í hnút.

Af þessum sökum er mikilvægt fyrir báða aðila, foreldra og börn, að hafa það á hreinu áður en byrjað er hvort börnin vilji aðstoð í raun og veru.

Það er heppilegt að biðja börnin um að segja hvað þau þurfa aðstoð við og, ef mögulegt er, hvers konar aðstoð.


Vertu ávallt vakandi fyrir því hvernig barnið þitt bregst við aðstoðinni. Sjáirðu minnstu merki um pirring eða neikvæð viðbrögð skaltu bakka svolítið því þá hefur þú gengið of langt.

Það stoðar ekkert að halda áfram aðstoðinni ef barnið er orðið neikvætt, hvað þá pirrað. Hvíldu þig þá aðeins eftir að hafa sammælst við barnið um hve lengi sú hvíld skuli vara.


Það er oftast tvennt sem pirrar börn sem þurfa aðstoð:

Þegar foreldrar fara að útskýra það sem börnin skilja

Í huga barnsins er nóg að þurfa aðstoð við það sem það skilur ekki. Barnið finnur ekki þörf fyrir aðstoð við verkefni sem það telur sig skilja. Virtu það.


Þegar börn skilja ekki útskýringar foreldranna sem eru öðruvísi en þau eru vön frá kennara sínum

Börnum getur þótt það sérstaklega pirrandi ef foreldrar halda áfram að nota sömu orðin aftur og aftur, orð sem börnin skildu ekki fyrst þegar þau voru sögð. Það er kunnátta að kenna og öllu flóknara en bara að útskýra hvernig á að leysa verkefni. Virtu það. Fáðu aðstoð hjá barninu þínu við að aðstoða það.


Það er oftast þrennt sem pirrar foreldra þegar þeir aðstoða við heimanám.

Barnið er ekki með hugann við námsefnið.

Hafðu í huga og sýndu því skilning og virðingu að ef til vill langar barnið þitt að gera eitthvað annað en að læra á þessari stundu. Þess vegna getur hugurinn farið á flakk. Brjóttu því tímann upp í stuttar einingar sem henta einbeitingargetunni og leyfðu barninu að gera eitthvað inn á milli sem dreifir huganum þó ekki um of. Leyfðu því t.d. að horfa út um gluggann, fá sér glas af vatni, eitt epli, spjalla aðeins, leika sér smá (þó ekki í tölvu eða horfa á sjónvarp). Haldið svo áfram í fyrirfram ákveðinn tíma. Það er líka hægt að sammælast um að ljúka tilteknu verkefni áður en önnur hvíld er tekin.


Barnið á erfitt með að skilja leiðbeiningar þínar.

Það er mjög líklegt að þú aðstoðir með öðrum hætti en Því skaltu ekki endurtaka aftur og aftur sömu leiðbeiningarnar ef þú finnur að barnið þitt skilur þær ekki (eða ef barnið pirrast út í þig). Bakkaðu aðeins og reyndu að nálgast útskýringarnar eða aðstoðina á annan hátt. Það er mun árangursríkara en að halda áfram á sömu braut sem þú finnur að hentar barninu þínu illa. Spyrðu jafnvel barnið af hlýju, umhyggju og í einlægni:

„Hvernig get ég aðstoðað þig?“


Það er eins og barnið firri sig ábyrgð á heimanáminu, ábyrgðin er orðin þín.

Úúppss, þarna fórstu yfir strikið! Bakkaðu svolítið og leiddu hugann að hlutverki þínu. Þú átt að aðstoða barnið við heimanámið en ekki bera ábyrgð á því. Varastu því að ýta of ákveðið á barnið að vinna og klára, gættu þess að spyrja og hlusta grannt eftir því hvernig barnið hyggst ljúka heimaverkefnunum á réttum tíma.