„Þú færð að ...“

📖

„Þú færð að ...“

Að baki þeim orðum sem við notum í samskiptum liggja ákveðin viðhorf og gildi. Gott dæmi er setning sem mátti stundum heyra frá ungum feðrum fyrir áratug eða svo. Þegar vinirnir spurðu hvort þeir kæmu ekki að horfa á enska boltann (eða eitthvað álíka) gat svarið hljóðað þannig:

„Nei, ég kemst ekki, ég er að passa.“

Allir vissu hvaða barn hann var að passa, það var hans eigið barn.

Þetta svar er arfleifð þeirra tíma þegar börn og uppeldi voru nær alfarið á ábyrgð móðurinnar og feður töldu sig vera að hjálpa henni þegar þeir tóku til hendinni á heimilinu. Þeir voru að passa fyrir konuna sína, móður barnanna sinna.

Ég geri ráð fyrir – og vænti þess beinlínis – að fáir ungir feður sleppi athugasemdalaust með að láta út úr sér viðlíka svar í dag.

Margt af því sem börn fást við í daglegu lífi sínu er hugsað sem tækifæri fyrir þau til aukins þroska, svo sem að sofa, borða, sækja skóla, hreyfa sig, stunda íþróttir og tónlistarnám.

Ósjaldan taka foreldrar á sig ábyrgðina á því að börnin þeirra noti þau tækifæri sem þau hafa oft og tíðum valið sér sjálf. Það gildir til dæmis um ábyrgðina á að barnið mæti í skóla eða á æfingar, læri heima, fari nægilega snemma að sofa og þar fram eftir götunum.

Það getur verið snúið fyrir foreldra að koma sér undan þessari ábyrgð og því er afar mikilvægt að þeir forðist að taka hana á sig.

Það er mun farsælla að móta frá upphafi það viðhorf hjá barninu að foreldrar líti á skólann sem tækifæri en að þurfa síðar meir að kenna barninu að líta þannig á sjálft, eftir að það hefur ef til vill tileinkað sér annað viðhorf.

Hafðu ávallt að markmiði að viðfangsefni sem barni þínu standa til boða eru ekki nauðung, heldur tækifæri, og talaðu um þau sem slík.

Þegar barnið á að fara að sofa, mæta í skólann, setjast til borðs eða sækja æfingu, skaltu velja orð sem gefa til kynna að í því sé fólgið tækifæri fyrir barnið sjálft.

Segðu ekki:

„Þú þarft að drífa þig í skólann,“ heldur:

„Þú færð að fara í skólann eftir fimm mínútur svo þú missir ekki af neinu.“

Segðu:

„Þú færð að koma að sofa eftir tíu mínútur,“ í stað þess að segja:

„Þú þarft að fara að sofa eftir tíu mínútur.“ Segðu oftar:

„Þú færð að ... “, í stað þess að leggja áherslu á ábyrgðina sem þú tekur á þig með því að segja:

„Þú þarft að ... “ Segðu til dæmis:

„Þú færð að klára matinn þinn.“

„Þú færð að reikna fimm dæmi í viðbót.“

„Þú færð að fara á æfingu í dag.“